2. Reglur um gerð yfirlits um sjóðstreymi

1. Fyrirtæki skal semja yfirlit um sjóðstreymi í samræmi við reglur þessar og birta það sem óaðskiljanlegan hluta af reikningsskilum sínum fyrir hvert tímabil sem það birtir reikningsskil fyrir.   2.  Upplýsingar um sjóðstreymi fyrirtækis geta komið lesendum reikningsskila að góðu gagni við að meta hæfi þess til að afla handbærs fjár og hvernig ráðstöfun þess er háttað.  Þegar til lengdar lætur er fyrirtæki nauðsynlegt að rekstur þess skili nægilegu fé til þess að unnt sé að standa við greiðsluskuldbindingar. Yfirlit um sjóðstreymi er einkum samið til þess að veita lesendum reikningsskila upplýsingar um þessi atriði. Þegar upplýsingar í sjóðstreymi eru notaðar ásamt upplýsingum í öðrum töluyfirlitum kemur það að gagni við að meta breytingar á fjárhagslegum styrk fyrirtækis, breytingar á fjárhagslegri skipan þess, hæfi þess til að afla ráðstöfunarfjár og til að leggja mat á framtíðargreiðsluflæði, sem m.a. má nota til að komast að niðurstöðu um verðmæti fyrirtækis.   3. Yfirlit um sjóðstreymi er til skýringar á því hvernig handbært fé hefur breyst frá einum tíma til annars. Til þess að auðvelda lestur yfirlitsins er því venjulega skipt í þrjá hluta. Einn hlutinn skýrir frá framlagi rekstrar af handbæru fé eða því hversu mikið fé til hans rann, annar hlutinn skýrir frá breytingum á fjármunahlið efnahagsreiknings og þriðji hlutinn greinir frá breytingum á fjármagnshlið efnahagsreikningsins.  Nauðsynlegt er að skilgreina handbært fé og í hvaða flokk breytingar á handbæru fé falla. Skilgreiningar á hugtökum 4.  Helstu hugtök við gerð yfirlits um sjóðstreymi eru þessi: Handbært fé er samheiti fyrir seðla, mynt, bankainnstæður og skammtímaverðbréf. Með bankainnstæðum er átt við óbundnar innstæður á tékkareikningum, sparisjóðsbókum og aðrar innstæður hjá fjármálastofnunum sem ekki eru háðar takmörkunum á notkun. Þá teljast einnig til handbærs fjár bankainnstæður sem bundnar eru til skemmri tíma en þriggja mánaða. Skammtímaverðbréf eru skuldabréf sem eru skráð eru á opinberum markaði en eitt einkenni slíkra bréfa er að þau er unnt að selja með skömmum fyrirvara og án fyrirhafnar og lítil óvissa er um verðmæti þeirra. Skammur tími merkir að sala eða innlausn bréfanna er ráðgerð innan þriggja mánaða. Við gerð yfirlits um sjóðstreymi eru verðbréf þessi talin meðal handbærs fjár. Rekstrarhreyfingar eru hreyfingar á handbæru fé sem stafa af helstu tekjuöflunarstarfsemi fyrirtækis, þ.e. hreyfingar sem varða rekstrarreikning þess, og annarri starfsemi sem ekki er unnt að flokka sem fjárfestingarhreyfingar eða fjármögnunarhreyfingar. Fjárfestingarhreyfingar eru hreyfingar á handbæru fé sem stafa af kaupum og/eða sölu á eignum, aðallega fastafjármunum fyrirtækis. Fastafjármunir taka til varanlegra rekstrarfjármuna og fjárfestinga í áhættufjármunum öðrum en þeim sem falla í flokk markaðsskráðra skammtímaverðbréfa og teljast til handbærs fjár. Fjármögnunarhreyfingar eru hreyfingar á handbæru fé sem stafa af breytingum á eiginfjármögnun fyrirtækis og lánsfjármögnun þess. Aðallega tekur slík lánsfjármögnun til langtímalána en hún getur einnig tekið til lánafyrirgreiðslu lánastofnana eða annarra aðila sem er til skamms tíma. 5.  Venjulega er ljóst hvaða liðir teljast til handbærs fjár. Nokkur álitaefni geta þó komið upp í þessu sambandi.  T.d. getur verið erfitt að flokka skammtímafjárfestingar í skuldabréfum en við þá flokkun getur komið að gagni að horfa til tilgangs fjárfestingarinnar. Hafi hann verið að festa laust fé í skuldabréfum í því skyni að ávaxta það til skamms tíma skal fjárfestingin teljast til handbærs fjár, en að öðrum kosti telst fjárfesting í skuldabréfum til áhættufjármuna og breytingar á þeim kæmu þá í flokk fjárfestingarhreyfinga.  Fjárfesting í hlutabréfum á opinberum markaði telst ekki til skammtímaverðbréfa við gerð yfirlits um sjóðstreymi. 6. Þá getur einnig verið álitamál hvernig á að flokka stöðu á yfirdráttarreikningi í banka. Eigi fyrirtæki laust fé á bankareikningum sem er hærra en yfirdrátturinn skal hann dreginn frá heildarinnstæðum eignamegin til að fá fram hreina stöðu á handbæru fé. Ef á hinn bóginn yfirdrátturinn er veruleg fjárhæð er raunhæfara að líta á hann sem sérstaka lánafyrirgreiðslu frá viðskiptabanka og við þær aðstæður fer betur á því að hreyfingar á yfirdrættinum komi fram sem breyting á fjármögnun fyrirtækis.  Þá skal einnig líta á breytingu á yfirdrætti sem fjármögnunarhreyfingu, þó að hann sé óverulegur, þegar þannig stendur á að fyrirtæki á engar bankainnstæður, enda getur handbært fé ekki orðið neikvætt samkvæmt orðanna hljóðan. Framsetning yfirlits um sjóðstreymi 7. Í reikningsskilum fyrirtækis skal yfirliti um sjóðstreymi skipað í þrjá flokka. Einn skal skýra frá rekstrarhreyfingum, annar frá fjárfestingarhreyfingum og sá þriðji frá fjármögnunarhreyfingum. Fyrirtæki ber að greina frá samsetningu handbærs fjár í upphafi og lok reikningsskilatímabilsins og því ber að gæta þess að fjárhæðir í yfirliti um sjóðstreymi stemmi við samsvarandi liði í efnahagsreikningi.  Samanburðarfjárhæðir sjóðstreymis á fyrra reikningsskilatímabili skal einnig birta.  Hafi flokkun sjóðstreymis verið breytt skal gera grein fyrir því í skýringum og þess gætt að tölur séu samanburðarhæfar í yfirliti um sjóðstreymi. 8. Það fer eftir eðli starfsemi fyrirtækja hvaða liðir koma fram í þremur ofangreindum flokkum. Í hverjum flokki geta komið fyrir innborganir og útborganir handbærs fjár. Nauðsynlegt er að skilgreina greiðslu- eða innheimtuhreyfingar þröngt, þ.e. þannig að aðeins raunveruleg hreyfing á handbæru fé komi fram. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum færist samkvæmt því sem fjárfestingarhreyfing aðeins að því marki sem hún hefur verið greidd. Við gerð yfirlits um sjóðstreymi getur þó verið erfitt að fylgja þessum fyrirmælum nákvæmlega eftir og því er heimilt að víkja frá þeim með vísan til mikilvægisreglunnar (regla 4.7) í reglum Reikningsskilaráðs nr. 1 um Grundvöll reikningsskila. Hér á eftir verður nánar gerð grein fyrir því hvernig skal skýra frá hreyfingum í hverjum flokki.     Rekstrarhreyfingar 9. Fyrirtæki er heimilt að nota annað hvort beina eða óbeina aðferð við að draga fram rekstrarhreyfingar eða framlag rekstrar í yfirliti um sjóðstreymi. Ef beina aðferðin er notuð skal framlag rekstrar einnig sýnt samkvæmt óbeinu aðferðinni annað hvort neðanmáls á yfirliti um sjóðstreymi eða í sérstakri skýringu.   10. Reikningsskilaráð gefur bæði kost á beinni og óbeinni aðferð við að sýna framlag rekstrar. Með beinu aðferðinni er auðveldara að vekja athygli á atriðum sem áhrif hafa á greiðsluflæði rekstrar í framtíðinni, en slíkar upplýsingar geta komið að góðu gagni t.d. við mat á fyrirtækjum. Þá segir framlag rekstrar einnig mikið um hæfi fyrirtækja til þess að greiða af lánum og greiða arð til hluthafa.  Miklu varðar því að fjárhæð framlags rekstrar af handbæru fé sé rétt tilgreind í yfirliti um sjóðstreymi. 11. Þegar beinu aðferðinni er beitt eru helstu flokkar innborgana og útborgana sýndir. Mikilvægt er að forðast að heiti einstakra hreyfinga sé kennt við tekjur og gjöld, þar sem slík framsetning væri til þess fallin að framlag rekstrar af handbæru fé, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt, sé túlkað sem afkoma fyrirtækis. Greiðsluframlagið getur þó skipt máli við mat á afkomu fyrirtækis. Þegar beinu aðferðinni er beitt er gerð krafa um að þær upplýsingar sem fram koma samkvæmt óbeinu aðferðinni skuli birta. Þetta er einkum gert til þess að vekja máls á stærðinni hreint veltufé frá rekstri en hún kemur ekki fram samkvæmt beinu aðferðinni. Einnig þykir rétt að fram komi breytingar á rekstrartengdum eignum og skuldum, enda geta þær veitt fróðleik sem ekki kemur fram samkvæmt beinu aðferðinni. 12. Framlag rekstrar má draga fram samkvæmt beinu aðferðinni með tvennum hætti.  Annars vegar með því að sundurgreina einstakar hreyfingar á handbæru fé, er rekstur varða, á því tímabili sem er til skoðunar eða með því að reikna út framlag einstakra liða með aðstoð rekstrarliða og stöðu efnahagsliða í upphafi og lok viðkomandi uppgjörstímabils.  Seinni kosturinn er fyrirferðarminni en báðar aðferðirnar ættu að gefa sömu niðurstöðu, sbr. þó heimild til frávika sem gerð var grein fyrir í tölulið 8 hér að framan. 13. Þegar óbeinu aðferðinni er beitt er framlag rekstrar af handbæru fé dregið fram með því að bæta við eða draga frá afkomu samkvæmt rekstrarreikningi tvenns konar liði.  Annar flokkurinn varðar rekstrarliði sem ekki hreyfa handbært fé en hinn tekur til breytinga á rekstrartengdum eignum og skuldum. Rétt þykir að skýra þessa liði frekar. 14. Rekstrarliðir sem ekki hreyfa handbært fé eru tekju- og gjaldaliðir í rekstrarreikningi sem ekki hafa áhrif á greiðsluflæði. Þessir rekstrarliðir eiga það sameiginlegt að mótbókun við færslu í rekstrarreikning er annað hvort í flokki fastafjármuna, langtímaskulda eða eigin fjár í efnahagsreikningi.  Dæmi um rekstrarliði sem í þennan flokk falla eru afskriftir fastafjármuna, gengismunur vegna langtímaskulda og verðbreytingarfærsla á peningalega stöðu fyrirtækis sem færist á eigið fé.  Eins og fram kemur í viðauka þykir fara vel á því að sýna hreint veltufé frá rekstri sem millistærð, en hún tekur til afkomu samkvæmt rekstrarreikningi að teknu tilliti til umræddra rekstrarliða sem ekki hreyfa handbært fé.     15. Seinni flokkurinn tekur til breytinga á rekstrartengdum eignum og skuldum. Þessir liðir eiga það sameiginlegt að mótbókun þeirra við eigna- eða skuldareikninga er í rekstrarreikningi.  Til þess að framlag rekstrar sé rétt tilgreint í yfirliti um sjóðstreymi er þýðingarmikið að eignir og skuldir séu nákvæmlega sundurliðaðar með tilliti til þess hvort þær varða rekstur. Ljóst er að það hefur áhrif á framlag rekstrar ef skammtímaskuldir sem varða fjárfestingu eru flokkaðar sem rekstrartengdar skuldir. Einnig hefur það áhrif á framlag rekstrar að flokka rekstrartengdar skuldir sem skuldir vegna fjármögnunar, t.d. væru vanskil við birgja ekki fjármögnunarliður í yfirliti um sjóðstreymi. Fjárfestingarhreyfingar 16. Fyrirtæki skulu draga greiðslur vegna fjárfestingar saman í nokkra meginflokka í yfirliti um sjóðstreymi. Hið sama gildir um innborganir sem teljast til fjárfestingarhreyfinga.  Sérstaklega skal skýra frá sjóðstreymi sem stafar af kaupum og sölu á dótturfélögum eða öðrum rekstrareiningum. 17. Útborganir og innborganir sem falla í flokk fjárfestingarhreyfinga varða eignahlið efnahagsreiknings, einkum fastafjármuni. Hér skulu koma fram greiðslur vegna kaupa á varanlegum rekstrarfjármunum og áhættufjármunum. Aðeins skal tilgreina þann hluta af kaupverði sem greiddur hefur verið. Kaupverð getur samkvæmt því verið fært í yfirlit um sjóðstreymi á fleiri en eitt tímabil. Til athugunar kæmi þó að sýna heildarkaupverð sem ráðstöfun en þá yrði að sýna í þessum flokki breytingu á skammtímaskuld sem tengdist fjárfestingunni.  Einnig geta fallið í þennan flokk greiðslur vegna eigna sem flokkaðar eru sem veltufjármunir. Til að mynda gæti fyrirtæki hafa fest fé í verðbréfum sem eru til skamms tíma án þess að þau teljist til markaðsskráðra skuldabréfa og kæmu þá greiðsluáhrif vegna slíkrar fjárfestingar fram meðal fjárfestingarhreyfinga. 18.  Hið sama gildir um innborganir vegna sölu á fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum og áhættufjármunum; þær skal aðeins sýna að því marki sem innheimta hefur farið fram. 19. Við kaup á varanlegum rekstrarfjármunum er nauðsynlegt að hyggja að áhrifum óinnheimts virðisaukaskatts á yfirlit um sjóðstreymi.  Sá hluti viðskiptastöðu gagnvart hinu opinbera sem stafar af virðisaukaskatti, þ.e. innskatti, skal hafa áhrif á fjárfestingarhreyfingar en ekki rekstrarhreyfingar. Hafi fyrirtæki t.d. greitt fyrir fjárfestingu að fullu á tilteknu reikningsári, þ.m.t. virðisaukaskatt, kemur sú greiðsla sem ráðstöfun í flokki fjárfestingarhreyfinga en innheimta innskatts sem innborgun á næsta tímabili í sama flokki. Með þessum hætti hefur staða fyrirtækis gagnvart virðisaukaskatti sem varðar fjárfestingu ekki áhrif á framlag rekstrar. Í þessu efni gildir hið sama um sölu varanlegra rekstrarfjármuna og tilsvarandi útskatt af þeim viðskiptum.  Frá þessum fyrirmælum má þó víkja ef um óverulegar fjárhæðir er að ræða. 20. Eigi fyrirtæki óinnheimt hlutafjárloforð skal innheimta á þeim koma fram sem fjármögnunarhreyfing fremur en sem fjárfestingarhreyfing, enda er í raun ekki um fjárfestingu að ræða, þó að krafan sé sýnd í efnahagsreikningi sem eign.       Fjármögnunarhreyfingar 21. Í yfirliti um sjóðstreymi skulu fyrirtæki draga saman í meginflokka helstu greiðslur og innborganir vegna fjármögnunar. 22. Innborganir og útborganir handbærs fjár sem falla í flokk fjármögnunarhreyfinga varða skuldahlið efnahagsreiknings. Hér er gerð grein fyrir nýjum lántökum, afborgunum af eldri lánum og breytingum á innborguðu eigin fé. Að auki skal færa greiddan arð í þennan flokk í sjóðstreymi því að sú greiðsla varðar breytingu á fjármögnun eða fjárhagslegri skipan fyrirtækis. 23. Þó að algengast sé að breytingar á fjármögnun fyrirtækis varði langtímafjármagn geta einnig komið fyrir breytingar á skammtímafjármögnun fyrirtækis, enda hafi verið stofnað til slíkrar fjármögnunar til að bæta fjárreiðustöðu þess.  Meginmáli í þessu sambandi skiptir að innborgun eða útborgun skammtímafjármögnunar, hvort sem hún er frá viðskiptabanka fyrirtækis eða ekki, gangi til breytingar á stöðu handbærs fjár. Óreglulegir liðir 24.  Áhrif óreglulegra rekstrarliða á greiðslustöðu skulu sérgreind í yfirliti um sjóðstreymi.   25. Til þess að unnt sé að sýna áhrif reglulegs rekstrar á fjárreiðustöðu fyrirtækis er nauðsynlegt að einangra áhrif óreglulegra liða. Með óreglulegum liðum í þessu sambandi er átt við innborganir eða útborganir sem ekki er gert ráð fyrir að endurtaki sig í bráð. Auk óreglulegra rekstrarliða geta fallið til óreglulegir liðir sem varða hina flokka yfirlits um sjóðstreymi, þ.e. fjárfestingarhreyfingar eða fjármögnarhreyfingar. Sérstakar upplýsingar í yfirliti um sjóðstreymi 26. Sérstaklega skal skýra frá greiðsluáhrifum vaxta af langvinnu fjármagni, vaxta af skammtímarekstrarlánum svo og vaxtatekna af verðbréfum, þ.m.t. mótteknum arði af hlutabréfaeign. 27. Sérstaklega skal skýra frá greiddum tekjuskatti og eignarskatti.  Þessa skatta má einnig fella í flokk fjárfestingarhreyfinga og fjármögnunarhreyfinga enda sé unnt að tengja þá sérstaklega við þær hreyfingar. 28. Aðallega koma tveir kostir til greina við frásögn af greiddum og mótteknum vöxtum og greiddum sköttum.  Annar er sá að upplýsa neðanmáls á yfirliti um sjóðstreymi eða í skýringum um vexti og skatta og væru þeir þá fólgnir í framlagi rekstrar.  Hinn framsetningarkosturinn er að sýna sérstaklega greiðsluáhrif þessara liða í yfirliti um sjóðstreymi þannig að framlag rekstrar sé einangrað, þ.e. sýnt án áhrifa greiddra og innheimtra vaxta og skatta.  Að gagni getur komið að veita upplýsingar um greiðsluáhrif þessara liða, því að framlag rekstrar án vaxta hefur þýðingu, t.d. við mat á fyrirtækjum.   29.  Við framsetningu á greiddum og mótteknum vöxtum kemur einnig til greina að fella greiðslu þeirra í flokk fjármögnunarhreyfinga eða fjárfestingarhreyfinga og sérgreina þar. Með þeim hætti væri samræmi í meðhöndlun kostnaðar af fjármagni, því svo sem gerð var grein fyrir í tölulið 22 hér að framan, skal færa greiðslu arðs í flokk fjármögnunarhreyfinga.  Í þessu sambandi skal þó bent á að huga þarf að framsetningu skattalegra áhrifa á þessa liði. Mikilvægar fjárfestingar og mikilvæg fjármögnun sem ekki hefur áhrif á handbært fé 30. Upplýsa skal í skýringum um mikilvægar fjárfestingar og mikilvæga fjármögnun sem ekki hefur áhrif á handbært fé. 31.  Þar sem yfirlit um sjóðstreymi tekur aðeins til raunbreytinga á stöðu handbærs fjár koma ekki fram í slíku yfirliti fjárfestingar og fjármögnun sem ekki hefur greiðslur í för með sér.  Af þeim sökum er nauðsynlegt að veita upplýsingar um fjárfestingu og fjármögnun sem er án greiðslna. Dæmi um þetta væri ef fyrirtæki kaupir fasteign og fjármagnar kaupin að öllu leyti eða að hluta til með skuldabréfaláni frá seljanda; hið sama gildir um fjármögnunaleigusamning sem er eignfærður og skuldfærður.  Aðeins sá hluti kaupverðsins sem greiddur er kæmi sem fjárfestingarhreyfing í yfirliti um sjóðstreymi, en til þess að upplýsa um þann hluta sem ekki var greiddur verður að gera það með sérstakri skýringu. Annað dæmi væri ef fyrirtæki breytti langtímaláni í hlutafé.  Hér gæti verið um mikilvæga breytingu á fjármögnun fyrirtækis sem nauðsynlegt væri að upplýsa um en sjóðstreymi skýrir ekki frá, enda fóru engar greiðslur fram sem breyttu handbæru fé.  Upplýsingar um slíka breytingu á fjármögnun gætu þá komið fram neðanmáls á yfirliti um sjóðstreymi eða í skýringum, svo sem gerð er grein fyrir í viðauka með reglum þessum. Önnur atriði 32.  Greina skal frá mikilvægum atriðum sem snerta yfirlit um sjóðstreymi í sérstakri skýringu um yfirlitið. Þá skal sérstaklega skal frá því skýrt ef einhverjar takmarkanir eru á notkun handbærs fjár. Við framsetningu sjóðstreymis er það meginregla að innborganir og útborganir skal ekki fella saman.  Heimilt er að fella liði saman, en þá skal frá því greint í skýringum. Sjóðstreymi sem stafar af viðskiptum í erlendri mynt skal bókfæra við því gengi sem var í gildi þegar greiðslan átti sér stað. 33.  Ýmis tilefni geta gefist til að veita frekari upplýsingar en er að finna í eiginlegu yfirliti um sjóðstreymi.  Til að mynda gæti verið gagnlegt að fá upplýsingar um greiðsluframlag rekstrar eftir einstökum starfsþáttum í rekstri fyrirtækis. Samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga getur átt við að upplýsa um tekjur einstakra starfsþátta og í því sambandi gætu greiðsluáhrif einstakra starfsþátta einnig verið áhugaverðar.  Þá væri einnig gagnlegt með hliðsjón af takmörkunum yfirlits um sjóðstreymi að semja sérstaka skýringu um framlag rekstrar fyrir nokkur undangengin ár. Í samstæðureikningi gætu aðstæður valdið því að samstæðan getur ekki ráðstafað handbæru fé, t.d. vegna hamla á gjaldeyrisviðskiptum.