Haustráðstefna FLE 2024
14.11.2024
Haustráðstefna FLE var haldin þann 8. nóvember á Nordica Hilton og var fjölbreytt og skemmtileg að vanda. Í morgunerindinu sagði Valdimar Sigurðsson, prófessor við HR, okkur frá rannsókn sinni, þar sem hann rannsakar hvernig eigi að laða að ungt hæfileikaríkt fólk í stéttina.
Sú breyting var á fyrirkomulagi þetta árið að ein vinnustofan var skylda og þurftu allir félagsmenn að sækja hana. Þetta var vinnustofa sem Valdimar og Kristín Erla, aðstoðarmaður í rannsóknum við HR stýrðu. Vinnustofan kannaði upplifun fólks af endurskoðunarstörfum og vinnu með markaðskennitölur og samskiptalíkön. Rætt var um hvernig draga megi úr þeirri gjá sem virðist vera milli almennings, sérstaklega ungs fólks, og þeirra sem starfa við endurskoðun. Hvernig getum við aukið vitund, þekkingu, áhuga og jákvæða ímynd um endurskoðun sem áhugaverðan starfsvettvang?
Félagsmenn völdu síðan tvo fyrirlestra af þeim þremur sem voru í boði. Brynjólfur Borgar fjallaði um framfarir gervigreindar, hvaðan hún er að koma og hvert hún er að fara. Þröstur Olaf Sigurjónsson fór yfir nýja strauma og stefnur á sviði stjórnarhátta fyrirtækja, meðal annars með því að greina hvað hin Norðurlöndin hafa verið að leggja áherslu á þegar kemur að stjórnarháttum. Jón Arnar Baldurs fór yfir ýmis atriði varðandi virðisaukaskatt en megin áhersla var á frjálsa og sérstaka skráningu og atriði sem varða innskattsfrádrátt.