Meistaraprófsritgerð um IFRS 16
IFRS 16 Leigusamningar tók gildi í upphafi árs 2019. Við innleiðingu staðalsins komu upp ýmis erfið úrlausnarefni og það sem virtist einfalt við fyrstu sýn reyndist ansi snúið þegar á reyndi. Má þar nefna atriði eins og ákvörðun leigutíma og mat á afvöxtunarstuðli við núvirðingu leiguskulda. Í júní síðastliðnum luku þeir Gylfi Geir Gylfason og Þorkell Már Einarsson meistaraprófi í reikningsskilum og endurskoðun við Háskóla Íslands. Þeir starfa báðir við fagið, Gylfi Geir hjá Deloitte og Þorkell Már hjá Advant. Í meistaraprófsritgerð sinni, sem unnin var undir handleiðslu Árna Classen, endurskoðanda hjá KPMG og lektors við HÍ, skoðuðu þeir árangur Innleiðingar IFRS 16 og áhrif á skráð félög á Íslandi. Markmið ritgerðarinnar var tvíþætt; annars vegar að greina bein áhrif IFRS 16 á ákveðna þætti ársreikninga skráðra félaga sem og kennitölur þeirra og hins vegar að meta hvernig innleiðing staðalsins tókst til hjá skráðu félögunum. Niðurstaða þeirra var að innleiðingin hafi tekist vel til hjá skráðu félögunum en kallað á mikla vinnu en jafnframt að markmið og árangur með tilkomu staðalsins séu mjög umdeild og skiptar skoðanir á því hvort innleiðingin sé til hagsbóta fyrir félögin. Félagið óskar þeim Gylfa Geir og Þorkeli Má til hamingju með útskriftina. Ritgerð þeirra má nálgast hér. |