1. Inngangur
30.08.2004
Samkvæmt ákvæðum laga1 skal skrá birgðir við kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist. Engin nánari fyrirmæli er að finna í lögum um túlkun á þessari reglu. Af þeim sökum þykir Reikningsskilaráðinu við hæfi að gera grein fyrir því hvernig kostnaðarverð og dagverð skuli ákveðið og öðrum atriðum er varða birgðir. Miklu máli skiptir að skýr fyrirmæli liggi fyrir um framkvæmd þessarar reglu, enda eru birgðir oft afar þýðingarmikill liður í reikningsskilum fyrirtækja.
Í reglum þessum er að finna túlkun á ofangreindum fyrirmælum laga og þeirri meginreglu um skráningu eigna sem er að finna í greinargerð Reikningsskilaráðs um Grundvöll reikningsskila, reglu nr. 1. Þar segir að samkvæmt kostnaðarverðsreglu (reglu 4.1) skuli skrá eignir við upphaflegu kaupverði. Þar segir einnig að til upphaflegs kaupverðs teljist allur áfallinn kostnaður til þess að gera eign arðbæra. Með hliðsjón af varkárnisreglu (reglu 4.8) ber þó að færa eignir til lægra verðs þegar óvissa þykir vera um mat þeirra. Í reglum þeim sem hér fara á eftir verða þessar meginreglur reikningshalds útskýrðar með tilliti til birgða.
Við samningu þessara reglna var aðallega stuðst við erlendar reglur um sama efni, sem komið hafa frá Alþjóðlegu reikningsskilanefndinni2, en einnig hefur verið höfð hliðsjón af reglum dönsku3 og bandarísku4 reikningsskilanefndanna. Þá hefur að auki verið höfð hliðsjón af framkvæmd þessara mála hér á landi í þeim tilvikum sem hún þykir vera sérstök.
Í meginefni reglnanna, sem fylgja hér á eftir, eru reglur um mat birgða settar fram með feitu og skásettu letri. Þar á eftir fer umræða um einstaka liði eftir því sem tilefni er til. Líta ber á þá umræðu sem hluta af reglunum.
Reglur þessar taka til skráningar birgða hjá þeim sem skylt er að fara eftir bókhaldslögum. Reglurnar taka ekki til verkefna í vinnslu hjá verktakafyrirtækjum, enda er það sérstakt mál sem krefst sjálfstæðra reglna. Þær taka ekki heldur til birgðamats hjá fyrirtækjum í landbúnaðarframleiðslu.
1) Sbr. 28. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, 26. og 27. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, og 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt.
2) Staðall Alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (International Accounting Standards Committee) tók gildi 1. janúar 1995. Hann er númer 2 og kemur í staðinn fyrir staðal sem settur var 1975. Nýi staðallinn ber heitið Inventories.
3) Staðall dönsku nefndarinnar (Regnskabsteknisk Udvalg) 1. júlí 1993. Hann er númer 8 og ber heitið Varebeholdninger.
4) Staðall bandarísku nefndarinnar (Financial Accounting Standards Borard) tók gildi í júní 1953. Hann var settur af forvera núverandi nefndar og er hluti (4. kafli). álitsgerðar númer 43, sem ber heitið Restatement and Revision of Accounting Research Bulletins.