1. Nafn, tilgangur

1. gr. Nafn félagsins er Félag löggiltra endurskoðenda, skammstafað FLE. 2. gr. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. 3. gr. Félagsmenn eru þeir endurskoðendur, sem þess óska og fullnægja skilyrðum samþykkta þessara. 4. gr. Tilgangur félagsins er: Að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna. Að vinna að samræmingu á vinnubrögðum félagsmanna m. a. með útgáfu leiðbeinandi reglna um endurskoðun og reikningsskil. Að vinna að bættri þjónustu félagsmanna við viðskiptavini sína og aðra, er byggja á störfum þeirra. Að vinna að kynningu á starfssviði félagsmanna. Að vera í forsvari fyrir félagsmenn sem heild á opinberum vettvangi. Að gæta hagsmuna félagsmanna sem tengjast störfum þeirra sem endurskoðenda. Að vera vettvangur fyrir gagnkvæm kynni félagsmanna. Að vinna að því að almennt aðhald sé með starfsemi og framkvæmd starfa endurskoðenda. Að koma fram fyrir hönd endurskoðenda gagnvart stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða. 5. gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná m. a. með reglulegum og tíðum fundum félagsmanna, ályktunum og samþykktum, námskeiðahaldi fyrir endurskoðendur og starfsmenn þeirra, eitt sér eða í samstarfi við aðra aðila; einnig með útgáfu tímarits, fréttablaðs og annarra upplýsingarita, samantekt fræðslugagna, rekstri þjónustu- og félagsmiðstöðvar fyrir félagsmenn, rekstri bóka- og tímaritasafns um efni, sem varða störf endurskoðenda, samstarfi við hliðstæð félög innlend og erlend og með öðrum þeim hætti sem forsvarsmenn félagsins telja henta og við eiga hverju sinni. Félagið tekur við tilkynningum um starfsmenn sem eru í starfsþjálfun hjá endurskoðendum og heldur um þá skrá.