4. Verðlagsbreytingar
30.08.2004
27. Ef tekið er tillit til almennra verðlagsbreytinga í reikningsskilum skal skrá birgðir á framreiknuðu kostnaðarverði eða reiknuðu kaupverði. Ef reikningsskil eru leiðrétt fyrir áhrifum almennra verðlagsbreytinga skal færa verðleiðréttingu á birgðir í liðnum kostnaðarverð seldra vara.
28. Um leið og endurbætur þær sem Reikningsskilanefnd FLE stóð fyrir um útreikning á áhrifum verðbólgu tóku gildi varð birgðamatsreglan í íslenskum reikningsskilum framreiknað kostnaðarverð eða dagverð, hvort sem lægra reynist. Samkvæmt þeirri aðferð skal færa kostnaðarverð birgða til verðlags á reikningsskiladegi eða á reiknuðu kostnaðarverði og er þá almennt við það miðað að það verð sé nánast á verðlagi í lok árs. Þegar þessari aðferð er beitt skiptir máli að kostnaðarverð seldra vara feli í sér leiðréttingu fyrir áhrifum verðlagsbreytinga og er miðað við að það kostnaðarverð sé á meðalverðlagi uppgjörstímabilsins. Hækkun á kostnaðarverði seldra vara og á birgðum á reikningsskiladegi skal síðan færa á endurmatsreikning. Þessi aðferð felur í sér að hin svonefnda verðbreytingarfærsla takmarkast við verðleiðréttingu á peningalegum liðum í efnahagsreikningi. Ef birgðir eru meðhöndlaðar sem peningalegur liður við útreikning á verðbreytingarfærslu er eigi að síður nauðsynlegt að leiðrétta kostnaðarverð seldra vara fyrir áhrifum þess hluta færslunnar sem á rætur sínar í birgðum.