Af stjórnarborði

Evrópusambandið hefur lagt fram tillögu að breytingum á áttundu tilskipuninni um endurskoðun, þar sem lagt er til að alþjóðlegu endurskoðunarstaðlarnir (ISA) skulu ná til endurskoðunar allra félaga á Alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar- áttunda tilskipunin: Evrópusambandið hefur lagt fram tillögu að breytingum á áttundu tilskipuninni um endurskoðun, þar sem lagt er til að alþjóðlegu endurskoðunarstaðlarnir (ISA) skulu ná til endurskoðunar allra félaga á evrópska efnahagssvæðinu frá og með ársbyrjun 2006. Önnur markmið með boðuðum breytingum á tilskipuninni eru m.a. þau að skilgreina betur skyldur endurskoðenda og að óhæði þeirra sé tryggt. Settar eru fram kröfur um ytra gæðaeftirlit og að opinbert eftirlit með störfum endurskoðenda verði aukið. Jafnframt er tekið á kröfum um siðareglur þar sem sambandið setur það sem lágmarkskröfu að siðareglur IFAC séu innleiddar á evrópska efnahagssvæðinu. Þessi mál hlutu mikla og góða umfjöllun á endurskoðunardegi félagsins þann 16. apríl s.l., en ljóst er að mikil vinna er framundan í þessum málum bæði á vegum félagsins og hins opinbera. Mun sú vinna koma í beinu framhaldi af þeirri vinnu sem nú er í gangi í tengslum við innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, vegna samstæðureikninga skráðra félaga, sem taka gildi frá og með  byrjun árs 2005. Það er ljóst að við erum stödd á miklum umbreytingartímum í heimi endurskoðunar og framtíð okkar ræðst af því hvernig við bregðumst við þeim breytingum sem boðaðar eru. Við getum því miður ekki lengur vitnað til sögunnar til að benda á mikilvægi okkar og traust í heimi viðskipta. Endurskoðunarstéttin stendur frammi fyrir því að vinna sér inn trúnað og traust aðila viðskiptalífsins. Það er því mikilvægt að félagið standi vel við bakið á félagsmönnum við að tileinka sér alþjóðlega staðla bæði á sviði endurskoðunar og reikningsskila. Við þurfum jafnframt að taka reglur um gæðaeftirlit og óhæðis- og siðareglur föstum tökum og sýna ákveðna forystu í þeim efnum gagnvart hinu opinbera. Heimasíður: Í byrjun síðasta mánaðar urðu þau merku tímamót í starfi NRF, Norræna endurskoðendasambandsins, að opnuð var heimasíða á vegum þess. Þar er að finna helstu upplýsingar um NRF og aðildarlönd þess, þátttöku NRF í alþjóðlegu samstarfi, svo sem FEE og IFAC, og aðrar upplýsingar sem snerta starfsemi félagsins. Einnig er þar að finna helstu fréttir frá Norðurlöndunum og jafnframt tengla til að komast beint inn á heimasíður allra félaga innan NRF, sem og ýmsar aðrar áhugaverðar síður fyrir endurskoðendur. Heimasíðan er á ensku og er slóðin www.nrfaccount.se. Um leið og ég óska NRF, og þá sérstaklega Björn Markland framkvæmdastjóra NRF, til hamingju með þetta framtak, vil ég hvetja alla félagsmenn til að heimsækja og nota síðuna. Á sama tíma hefur ritnefnd FLE unnið hörðum höndum að nýrri heimasíðu félagsins. Nú er svo komið að undirritaður hefur verið samningur við aðila sem mun annast uppsetningu og viðhald síðunnar og er þessa dagana verið að vinna að uppsetningu hennar. Eins og áður hefur komið fram er ætlunin sú að heimasíðan verði góður vettvangur fyrir stjórn og nefndir félagsins til að koma hinum ýmsu málefnum á framfæri og að hún komi m.a. til með að þjóna þeim tilgangi sem handbók endurskoðenda hefur gert til þessa. Vonast er til að hin nýja heimasíða fari í loftið í byrjun sumars. Ríkisendurskoðun - þingmannafrumvarp: Á aðalfundi Félags löggiltra endurskoðenda sem haldinn var 8 nóvember sl. var eftirfarandi samþykkt: Aðalfundur FLE, haldinn á Akureyri 8. nóvember 2003, beinir til nýkjörinnar stjórnar félagsins, að hún hlutist til um að fram fari úttekt á fyrirkomulagi ríkisendurskoðunar. Úttektin beinist einkum að því hvort hagkvæmt sé (t.d. með útboðum) að sjálfstætt starfandi endurskoðunarfyrirtæki og endurskoðendur leysi ríkisendurskoðun af hólmi við fjárhagsendurskoðun ríkisaðila og hlutafélaga sem eru í meirihlutaeigu ríkisins. Stjórn félagsins sendi í ársbyrjun bréf til forsætisnefndar Alþingis og ríkisendurskoðunar þar sem þessari bókun var komið á framfæri. Þess var jafnframt getið að stjórnin vænti þess að fagleg umræða um endurskoðun ríkissjóðs, og fyrirtækja og stofnana í eigu ríkissjóðs geti orðið til þess að bæta það starf og styrkja jafnframt endurskoðun sem faggrein hér á landi. Í framhaldi af þessari umræðu innan félagsins hefur nú komið fram á Alþingi þingmannafrumvarp um breytingu á lögum nr. 86/1997 um ríkisendurskoðun. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að eðlilegt þyki að endurskoðun reikninga félaga í eigu ríkissjóðs sem rekin eru sem sjálfstæðar einingar, fari fram með sama hætti og almennt gerist, þ.e. að sjálfstætt starfandi endurskoðendur annist hana. Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2005 og taki til endurskoðunar ársreikninga frá og með rekstrarárinu 2005. Stjórn félagsins fagnar framkomnu frumvarpi og gerir sér vonir um að það nái fram að ganga, enda er frumvarpið á sömu nótum og bókun sú sem félagsmenn samþykktu samhljóða á síðasta aðalfundi. Stjórnunarhættir fyrirtækja (corporate governance): Verslunarráð Íslands gaf út á dögunum leiðbeiningar um stjórnunarhætti fyrirtækja. Markmiðið með þessum leiðbeiningum er að skýra hlutverk og störf stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja á Íslandi og auðvelda þeim þannig að rækja skyldur sínar. Fram kemur í inngangi bæklingsins að það sé mikilvægt að viðskiptalífið taki með þessum hætti ákveðið frumkvæði með það að markmiði að styrkja umgjörð atvinnulífsins. Jafnframt kemur fram að leiðbeiningarnar henti hlutafélögum, hvort sem þau eru skráð í Kauphöll Íslands eða ekki. Eitt af þeim atriðum sem fram koma í leiðbeiningunum og snúa að okkur endurskoðendum er umfjöllun um endurskoðunarnefnd, sem undirnefnd stjórnar. Þar kemur m.a. fram að hlutverk nefndarinnar sé eftirlit með fjárhagslegri stöðu félagsins, mat á innra eftirlitskerfi félagsins og áhættustýringu, svo og mat á endurskoðunarskýrslum og öðrum störfum löggilts endurskoðanda félagsins. Það telst góður siður að fagna því sem vel er gert og vil ég því fyrir hönd stjórnar FLE óska Verzlunarráði til hamingju með þetta framtak og ekki síður þeim einstaklingum sem skipuðu þann starfshóp sem vann verkið. Nýir félagsmenn FLE: Í byrjun árs tilkynnti prófanefnd að fjórir einstaklingar hefðu staðist verkleg próf til löggildingar í endurskoðun. Svo fáir hafa ekki útskrifast síðan á árinu 1997 en á síðast liðnum sex árum hafa að meðaltali um tíu einstaklingar útskrifast á ári hverju. Stjórnin telur þetta vera umhugsunarefni, og hvort ekki þurfi að skoða, með heildarmyndina í huga, bóklega námið á háskólastigi, starfsþjálfunina sem nemar eiga rétt á þar sem þeir ráða sig til starfa, og síðast en ekki síst prófundirbúninginn sjálfan. Nánar er fjallað um prófniðurstöður hér í blaðinu. Hinir nýútskrifuðu endurskoðendur hafa allir gerst félagar í FLE og fyrir hönd stjórnar býð ég þá velkomna í félagið um leið og ég óska þeim til hamingju með áfangann. Nú er svo komið að stéttin telur 300 endurskoðendur og þar af eru 284 skráðir félagsmenn.