Álit Reikningskilaráðs á meðferð gengismunar í reikningsskilum

Með bréfi dags. 12. okt.2001. var þess farið á leit að Reikningsskilaráð svari nokkrum spurningum sem lúta að meðferð gengismunar í reikningsskilum skráðra félaga á Verðbréfaþingi Íslands.  KPMG Endurskoðun hf. b.t. Boga Bogasonar, Vegmúla 3, 108 Reykjavík. Reykjavík, 29. okt. 2001. Með bréfi dags. 12. okt. sl. var þess farið á leit að Reikningsskilaráð svari nokkrum spurningum sem lúta að meðferð gengismunar í reikningsskilum skráðra félaga á Verðbréfaþingi Íslands.  Svör ráðsins fylgja hér á eftir. Í lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, er engin fyrirmæli að hafa um meðferð gengismunar í reikningsskilum. Sá gengismunur sem um er spurt í erindi yðar lýtur að gengismun vegna fjárfestingar í erlendum dótturfélögum en um hann er sérstaklega fjallað í staðli Alþjóðlega reikningsskilaráðsins (IASB). Með vísan til þess að Reikningsskilaráð hefur fyrst og fremst samið reglur á grundvelli staðla frá alþjóðlegu nefndinni, þykir mega komast að þeirri niðurstöðu að staðlar alþjóðlegu nefndarinnar geti haft þýðingu hér á landi, jafnvel þótt þeim hafi ekki verið gerð skil á íslensku í sérstökum reglum frá Reikningsskilaráðinu.  Samkvæmt því er það niðurstaða Reikningsskilaráðs að efni greinar nr. 19 í staðli IASB nr. 21 um gengismun í reikningsskilum geti talist vera í samræmi við góða reikningsskilavenju hér á landi.  Í þessari grein er sérstaklega um það fjallað að gengismunur af erlendum lánum sem tekin voru til fjárfestingar í erlendum dótturfélögum geti við vissar verið færður á eigið fé fremur en í rekstrarreikning.  Skilyrðið, sem sett er í reglum IASB til að svo megi vera, er, að lánsféð og fjárfestinguna megi telja vera svokallaða áhættuvörn (e. hedge).  Að því skilyrði uppfylltu, sbr. ákvæði staðals IASB nr. 39 um fjármálasamninga, er heimilt að færa gengismuninn af lánsfénu á eigið fé, en hann kæmi þó síðar til álita við útreikning á söluhagnaði (eða sölutapi) við sölu fjárfestingarinnar, þ.e. færðist til gjalda eða tekna við þann útreikning eftir því sem við á. Það skilyrði sem hér skiptir meginmáli er að þegar til áhættuvarnarinnar var stofnað hafi verið gengið frá skjölum því til staðfestingar, sbr. ákvæði 142. gr. staðals nr. 39 frá alþjóðlegu nefndinni um það efni.   Með vísan til þess að reikningsskil hér á landi miðast enn við svonefndar verðleiðréttingar við gerð reikningsskila, verður að hafa í huga í þessu sambandi að sá hluti gengismunar af lánsfé sem svarar til almennra verðlagsbreytinga ætti þó að færast í rekstrarreikning til mótvægis við hina svonefndu verðbreytingarfærslu. Tekið skal sérstaklega fram að óheimilt væri að færa vexti af lánsfénu með sama hætti og gengismuninn, þ.e. þá yrði að gjaldfæra í rekstrarreikningi. Í erindi yðar kemur fram að nokkuð skorti á gegnsæi á markaði, ef fyrirtæki geta valið á milli mismunandi aðferða í því tilviki sem hér er gert að umtalsefni.  Undir það skal tekið. Það breytir þó engu um, að alþjóðlega nefndin býður upp á tvær aðferðir til að meðhöndla umræddan gengismun og af þeim sökum treystir Reikningsskilaráð sér ekki til þess að kveða á um að annar kosturinn skuli einvörðungu gilda.   Raunar er því þannig varið að Reikningsskilaráð hefur nú samið drög að reglum um meðferð gengismunar sem byggist á umræddum staðli frá IASB.  Þess er því að vænta að innan tíðar verði heimildin til þess að færa gengismun af lánsfé sem er í áhættuvörn á móti fjárfestingu í erlendu dótturfélagi sett í reglur hér á landi. Auk ofanritaðs vill Reikningsskilaráð nota þetta tækifæri til þess að koma því á framfæri að væntanlegar reglur um gengismun í reikningsskilum taka einnig til þess hvernig skuli að verki staðið við að umbreyta reikningsskilum erlendra dótturfélaga í íslenskar krónur.  Samkvæmt þeim reglum er það ekki valkvætt hvor af aðferðunum tveimur, sem fjallað er um í 38. gr. reglugerðar nr. 696/1996 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, er valin, heldur verður að beita annarri aðferðinni þegar vissum skilyrðum er fullnægt en að öðrum kosti skal beita hinni.  Það væri til þess fallið að auka gegnsæi á markaði ef eftir þeim alþjóðlegu reglum væri farið, þrátt fyrir heimildina í umræddri reglugerð.   Virðingarfyllst, _____________________________ Fh Reikningsskilaráðs