Ársfundur Norræna endurskoðendasambandins
Ársfundur Norræna endurskoðendasambandins (NRF) var haldinn í Stavanger í Noregi um miðjan ágúst. Unnar Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri og Kristrún Ingólfsdóttir, formaður sóttu fundinn fyrir hönd FLE auk Margrétar Pétursdóttur stjórnarmanns í Alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC). Félag löggiltra endurskoðenda er meðlimur í bæði IFAC og Evrópusamtökum endurskoðenda (Accountancy Europe).
Megin þema ársfundarins var samvinna og forgangsröðun tengd sjálfbærni og tækni, ekki síst gervigreind og líkleg áhrif á störf okkar endurskoðenda í framtíðinni. Það er ljóst að það eru spennandi tímar fram undan í okkar fagi sem vonandi mun laða að fleira fólk í stéttina enda veitir ekki af því.
Það er alltaf lagður mikill metnaður í ársfundi NRF, bæði dagskrá og afþreyingu. Það voru fjölmargir boðsgestir á ársfundinum auk framkvæmdastjóra, starfsmanna og stjórnarmanna í NRF. Sumir boðsgestanna héldu stuttar kynningar sem tengdust sjálfbærni og tækni og í framhaldi af þeim var svo skipt í vinnuhópa sem þurftu að svara tilteknum spurningum um viðfangsefnin og kynna sínar niðurstöður.
Boðsgestir voru Lee White, nýráðinn framkvæmdastjóri IFAC, Olivier Boutellis-Taft, fráfarandi framkvæmdastjóri Accountancy Europe, Eelco van der Enden, sem mun innan tíðar taka við af Olivier sem framkvæmdastjóri, Mark Vaessen, forseti Accountancy Europe og partner hjá KPMG í Hollandi, Tom Seidenstein, formaður alþjóða staðlaráðsins (IAASB) og Ken Siong sem er verkefnastjóri hjá IESBA (International Ethics Standards Board for Accountants) auk þeirra sem NRF hefur tilnefnt í IFAC, sem auk Margrétar Pétursdóttur eru þau Kai Morten Hagen frá félagi endurskoðenda í Noregi og Therese Andersson sem starfar hjá sænska félaginu.
Auk vinnufundarins var ýmislegt gert til dægrastyttingar fyrir þátttakendur og maka þeirra en mökum er einnig boðið á ársfundinn. Sem dæmi má nefna göngu á fjallið Preikostolen sem er frægt eftir að það kom fyrir í einni af fjölmörgum Mission impossible myndum Tom Cruise.