Breyting á reikningshaldslegu mati
01.09.2004
26. Skýra skal frá áhrifum breytinga á reikningshaldslegu mati á því tímabili sem matsbreyting er gerð og á síðari tímabilum, ef það getur átt við. Samkvæmt þessu eru afturvirkar matsbreytingar ekki heimilar.
27. Reikningsskil fyrirtækja byggja að ýmsu leyti á mati á ýmsum liðum. Til að mynda er það háð mati semjanda reikningsskila hversu mikið viðskiptakröfur eða birgðir eru færðar niður. Hið sama gildir um mat á líftíma eigna og ábyrgðarskuldbindingum sem eru færðar í bækur. Mat skal unnið á grundvelli ábyggilegra upplýsinga en þegar fram líða stundir geta forsendur hafa breyst og því nauðsynlegt að breyta matinu. Séu slíkar matsbreytingar gerðar gilda þær frá og með breytingarári en ekki er heimilt að gera afturvirkar breytingar á reikningsskilum fyrri ára gagnstætt því sem á við um breytingar á reikningsskilaaðferðum.
28. Stundum getur verið óljóst hvort breyting fellur í flokk matsbreytinga eða breytinga á reikningsskilaaðferð. Við þær aðstæður ber að flokka breytinguna sem matsbreytingu.
29. Áhrif matsbreytinga skulu koma fram í sama rekstrarlið og árið á undan. Upplýsa skal um fjárhæð og tegund matsbreytinga og þau áhrif sem matsbreytingin hefur á reikningsskil seinni tímabil ef unnt er.
30. Þó að áhrif matsbreytinga kunni að hafa veruleg áhrif á efni reikningsskila er óheimilt að flokka hana sem óreglulegan rekstrarlið, heldur verður matsbreytingin að koma fram í sama tekju- eða gjaldalið og breytingin varðar. Hins vegar mætti sérgreina hana í flokki viðkomandi tekna eða gjalda og þá ber að veita ítarlegri upplýsingar í skýringum um breytinguna en þó má ekki gefa upplýsingar sem eru til þess fallnar að kasta rýrð á fyrri reikningsskil, enda er afturvirk breyting ekki heimil.