Breytingar á lögum um endurskoðendur og endurskoðun og lögum um ársreikninga

Með lögum nr. 6/2024 sem samþykkt voru í lok janúar voru gerðar breytingar á lögum um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019 og lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Lagabreytingarnar hafa þegar tekið gildi. Við stilltum upp yfirliti yfir lagabreytingarnar. Hér að neðan er samantekt á helstu breytingum.

Endurskoðunarnefndir

Heimilt að veita einingu tengdri almannahagsmunum sem er dótturfélag undanþágu frá því að starfrækja endurskoðunarnefnd ef móðurfélag þess uppfyllir kröfur um endurskoðunarnefnd á samstæðustigi og dótturfélagið er í 100% eigu móðurfélagsins. Endurskoðendaráði er nú jafnframt falið að meta frammistöðu endurskoðunarnefnda.

Utanaðkomandi nefndarmenn skulu tilnefndir af aðalfundi eða ársfundi þar sem það á við og formaður nefndarinnar skal vera óháður einingunni og skipaður af nefndarmönnum eða stjórn einingarinnar. Gerð er krafa um að nefndarmenn skuli sameiginlega hafa yfir að ráða viðeigandi þekkingu og hæfni á því sviði sem endurskoðaða einingin starfar á. Þá skal að minnsta kosti einn nefndarmanna hafa þekkingu og hæfni á sviði reikningsskila eða endurskoðunar.

Endurskoðunarnefndin skal fylgjast með ferli við gerð reikningsskilananna og eftir atvikum leggja fram tillögur að umbótum við ferlið til að tryggja gæði reikningsskilanna, þar með talið heilindi upplýsinga í skýrslu stjórnar.

Heimild ársreikningaskrár til lækkunar eða niðurfellingar sekta

Í undantekningartilvikum getur ársreikningaskrá fellt niður stjórnvaldssekt, hafi óviðráðanleg atvik sannarlega valdið því að félag hafi ekki staðið skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 109. gr. ársreikningslaga. Stjórnvaldssektir falla ekki niður þrátt fyrir að ársreikningi hafi verið síðar skilað. Ákvarðanir ársreikningaskrár um álagningu sektar skv. 1. og 2. mgr. 120. gr. ársreikningslaga eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta því ekki stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds.

Siðareglur endurskoðenda

Gert er skýrara en áður var að það eru alþjóðlegu siðareglur IFAC sem gilda fyrir endurskoðendur og siðareglur séu hluti af góðri endurskoðunarvenju eins og hún er skilgreind í lögunum.

Endurskoðendaráð

Kveðið er skýrara en áður um að það sé endurskoðendaráð sem veiti starfsleyfi til endurskoðendafyrirtækja og að endurskoðendaráð teljist sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Þá er endurskoðendaráði nú veitt heimild til að ráða sér starfsmann til að ráðið geti sinnt skyldum sínum.

Endurskoðendaráði heimilt að fella réttindi endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis úr gildi ef um brot gegn ákvæðum laga um endurskoðun og endurskoðendur eða vanræksla á skyldum endurskoðenda er að ræða. Endurskoðendaráði er með lagabreytingunum veitt heimild til að áminna viðkomandi endurskoðanda ef brot er ekki stórfellt en áður var því skylt að áminna þó brot væri ekki stórfellt.