1 Inngangur
01.09.2004
Samkvæmt 47. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga skal upplýsa um heildarfjárhæð skatta af rekstri á árinu og af eignum í lok þess árs. Þá skal einnig skýra frá skattalegum áhrifum óreglulegra rekstrarliða. Loks er einnig kveðið á um það í þessari grein laganna að skýra skuli frá tekjuskattsskuldbindingum hvort sem þær eru bókfærðar eða ekki. Tilgangur þessara reglna um tekjuskatt er að gefa nánari fyrirmæli um hvernig skuli að verki standa.
Tekjuskattur er mikilvægur liður í reikningsskilum fyrirtækja sem rekin eru með hagnaði. Nauðsynlegt er því að gefa skýra mynd af þessum gjaldalið í reikningsskilum fyrirtækis og hvenær hann kemur til greiðslu. Þar sem samkvæmni þarf ekki að vera á milli þess afkomuhugtaks sem kveðið er á um í lögum um ársreikninga og skattskyldra hreinna tekna samkvæmt ákvæðum skattalaga, þarf við gerð reikningsskila að taka afstöðu til þess hvernig tekjuskattur er skráður. Í lögum um ársreikninga, sem byggjast á efni 4. tilskipunar Evrópusambandsins, er ekki gert skylt að láta tekjuskatt fylgja því afkomuhugtaki sem þar er kveðið á um. Þess í stað geta fyrirtækið valið milli þess að skrá tekjuskatt eftir því hvernig hann kemur til greiðslu, þ.e. skráning hans miðast við ákvæði skattalaga, eða að skrá tekjuskattinn þegar til hans er stofnað án tillits til þess hvenær hann fellur til greiðslu. Sú aðferð leiðir til tekjuskattsskuldbindinga og er sá háttur nú þegar orðinn býsna algengur hjá íslenskum fyrirtækjum en víða erlendis er skylda að fara eftir honum. Á síðustu árum hafa nokkrar breytingar verið gerðar á erlendum reglum um tekjuskattsskuldbindingar og miðast þessar reglur við það sem nú er tíðkað.
Jafnvel þótt lög um ársreikninga heimili að tekjuskattur sé ekki færður þegar til hans er stofnað vill Reikningsskilaráð mæla með því að tekjuskattur verði færður í samræmi við reglur þessar, enda er það í samræmi við meginreglur góðrar reikningsskilavenju.
Við samningu þessara reglna var aðallega stuðst við erlendar reglur um sama efni, einkum efni frá Alþjóðlegu reikningsskilanefndinni(1). Að nokkru leyti hefur einnig verið tekið mið af skráningu skatta hér á landi að því leyti sem hún hefur verið með öðrum hætti en annars staðar.
Í meginefni reglnanna, sem fylgja hér á eftir, eru reglur um skráningu tekjuskatts settar fram með feitu og skásettu letri. Þar á eftir fer umfjöllun um einstaka liði eftir því sem tilefni er til. Líta ber á þá umfjöllun sem hluta af reglunum.
Reglur þessar taka til þeirra aðila sem skylt er að fara að lögum um ársreikninga.
(1)Staðall Alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (International Accounting Standards Committee) tók gildi í endurskoðaðri útgáfu 1. janúar 1998. Staðall þessi er nr. 12 (IAS) og fjallar um tekjuskatt (e. Income Taxes).