1. Inngangur
01.09.2004
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga er skylt að semja fjárstreymisyfirlit og birta sem hluta af ársreikningi. Með lögunum er ekki tekin afstaða til þess hvers konar fjárstreymisyfirlit skuli birt í ársreikningi. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum eru þó tilgreindir tveir kostir og þar segir að ekki sé tekin afstaða til þess hvort birta skuli yfirlit um fjármagnsstreymi eða sjóðstreymi. Hins vegar segir í 21. gr. reglugerðar nr. 696/1996 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga að farið skuli að reglum Reikningsskilaráðs um gerð sjóðstreymis en færi gefið á yfirliti um fjármagnsstreymi þegar það þykir eiga betur við.
Miklu skiptir fyrir lesendur ársreikninga að ein gerð fjárstreymisyfirlita sé í ársreikningum og þá er einnig þýðingarmikið að samkvæmni sé í gerð þeirra. Af þeim sökum tók Reikningsskilaráð ákvörðun um að gefa úr reglur um gerð sjóðstreymis. Þessi ákvörðun ráðsins er tekin með hliðsjón af þeirri þróun hér á landi sem orðið hefur á undanförnum árum að sífellt fjölgar þeim fyrirtækjum sem birta sjóðstreymi í stað fjármagnsstreymis. Ákvörðun ráðsins byggist einnig á þróun þessara mála erlendis en þar hefur það verið að gerast í auknum mæli að til þess bærir aðilar gefi úr reglur um að horfið skuli frá gerð fjármagnsstreymis en sjóðstreymi skuli samið þess í stað.
Við samningu þessara reglna var aðallega stuðst við erlendar reglur um sama efni, einkum efni frá Alþjóðlegu reikningsskilanefndinni (1). Einnig hefur verið tekið mið af þróun í gerð yfirlits um sjóðstreymis hér á landi að því leyti sem hún hefur verið með öðrum hætti en annars staðar.
Í meginefni reglnanna, sem fylgja hér á eftir, eru reglur um gerð yfirlits um sjóðstreymi settar fram með feitu og skásettu letri. Þar á eftir fer umfjöllun um einstaka liði eftir því sem tilefni er til. Líta ber á þá umfjöllun sem hluta af reglunum.
Reglur þessar taka til þeirra aðila sem skylt er að fara að lögum um ársreikninga.
(1)Staðall Alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (International Accounting Standards Committee) tók gildi í endurskoðaðri útgáfu 1. janúar 1994. Staðall þessi er nr. 7 og fjallar um yfirlit um sjóðstreymi (e. Cash Flow Statements).