3. Önnur atriði
30.08.2004
23. Birgðir skal sundurgreina í efnahagsreikningi eða skýringum á eftirfarandi hátt eða eftir því sem tilefni er til: a) hráefni og rekstrarvörur, b) vörur í vinnslu og c) fullunnar vörur. Í skýringum skal greina frá því að hve miklu leyti birgðir eru skráðar á dagverði fremur en kostnaðarverði. Ef birgðir í flutningi eru verulegar skal sérgreina þær í reikningsskilum.
24. Þýðingarmikið getur verið fyrir lesanda reikningsskila að fá upplýsingar um að hve miklu leyti birgðamat miðast við dagverð. Krafa er því gerð um það að upplýst sé í skýringum um beitingu dagverðs.
25. Önnur atriði sem máli skiptir fyrir lesendur að fá upplýsingar um í skýringum eru þessi: a) veðsetning birgða, b) helstu flokkar birgða, t. d. hráefni, rekstrarvörubirgðir, vörur í vinnslu og fullunnar vörur, og c) skipting vörubirgða í birgðir í vörugeymslum viðkomandi aðila og í geymslum annarra, t. d. vegna þess að þær eru í flutningi eða í tollvörugeymslum.
26. Loks væri það skýringaratriði að greina frá skuldbindingum um vörukaup fram í tímann, sérstaklega ef þær kynnu að hafa truflandi áhrif á fjármálaumsýslu fyrirtækis á næsta reikningsskilatímabili. Hafi slíkur bindandi samningur verið gerður og verð á vörunum hefur síðan lækkað er nauðsynlegt að færa það tjón sem af samningnum hefur hlotist og færa til skuldar í efnahagsreikningi.