3. Stjórn og nefndir

11. gr. Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega til eins árs í senn. Ef fleiri en tveir fá atkvæði í formanns- eða varaformannskjöri, en enginn þeirra helming greiddra atkvæða, skal kosið að nýju milli þeirra tveggja, er flest atkvæði hlutu í fyrri kosningu. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, einn annað árið en tveir hitt. Óheimilt er að kjósa sama mann til formanns og varaformanns oftar en tvisvar í röð.  Óheimilt er að endurkjósa meðstjórnendur fyrr en ár er liðið frá því þeir gengu úr stjórn. Stjórnin kýs sér sjálf gjaldkera og ritara. Kosnir skulu einn endurskoðandi og einn varaendurskoðandi til eins árs. 12. gr. Fastanefndir félagsins skulu vera eftirfarandi: Álitsnefnd, sem hafi það hlutverk að láta uppi fyrir félagsins hönd rökstutt álit um hvers konar fyrirspurnir varðandi starfssvið endurskoðenda, sem fyrir félagið kynnu að verða lagðar af Alþingi, framkvæmdavaldi ríkisins, dómstólum, samtökum, einstökum félagsmönnum eða viðskiptamönnum þeirra.  Nefndin skal leita eftir greinargerð fagnefnda félagsins um einstök mál eftir því sem við á, áður en álit er gefið. Ennfremur fellir nefndin úrskurð í þeim málum sem til hennar kann að verða vísað samkvæmt reglum um samskipti félaga í Félagi löggiltra endurskoðenda.  Störf sín og ályktanir færir nefndin ásamt rökstuðningi í sérstaka gerðabók, er hún heldur.  Meirihluti atkvæða ræður niðurstöðum nefndarinnar, en sérhver nefndarmaður á rétt á að fá bókað sératkvæði sitt.  Endurskoðunarnefnd, sem hafi það hlutverk að fylgjast með þróun endurskoðunar hérlendis og erlendis og vinna að samræmingu á þeim störfum félagsmanna, sem varða endurskoðun almennt. Nefndin skal ennfremur gera tillögur um leiðbeinandi reglur um endurskoðun, sem gefnar yrðu út sem álit félagsins, sbr. 13. gr. Reikningsskilanefnd, sem hafi það hlutverk að fylgjast með þróun reikningsskila hérlendis og erlendis og vinna að samræmingu á þeim störfum félagsmanna, sem varða reikningsskil almennt. Nefndin skal ennfremur gera tillögur um leiðbeinandi reglur um reikningsskil, sem gefnar yrðu út sem álit félagsins, sbr. 13. gr. Menntunarnefnd, sem hafi það hlutverk að fylgjast með menntun og endurmenntun á starfssviði endurskoðenda og hlutist til um framkvæmd á því sviði í samráði við stjórn félagsins. Ritnefnd, sem hafi það hlutverk að ritstýra og annast reglubundna útgáfu á vegum félagsins, bæði í prentuðu máli og með öðrum miðlum. Skattanefnd, sem hafi það hlutverk að fylgjast með meiriháttar breytingum á skattalöggjöf og reglugerðum og kynna fyir félagsmönnum, svo og að sjá um samskipti við skattyfirvöld í samráði við stjórn félagsins. Gæðanefnd, sem hafi það hlutverk að móta og hafa yfirumsjón með gæðaeftirliti innan félagsins. Auk greindra fastanefnda getur stjórnin skipað sér við hlið nefndir til að annast tiltekin málefni innan félagsins, eftir því sem ástæða þykir til. 13. gr. Tillögur að leiðbeinandi reglum, sem Endurskoðunarnefnd leggur fram, skulu kynntar á félagsfundi og síðan sendar félagsmönnum svo þeim gefist kostur á að koma að athugasemdum innan hæfilegs frests.  Að loknum þeim fresti skal nefndin taka tillögurnar fyrir að nýju ásamt þeim athugasemdum sem fram hafa komið.  Tillögur, sem eftir þá athugun hljóta samþykki meirihluta nefndarmanna, skulu teknar til afgreiðslu á aðalfundi eða félagsfundi sem boðað er til með sama hætti og til aðalfundar.  Þær tillögur sem hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna skulu svo fljótt eftir fundinn, sem því verður við komið, kynntar sem álit félagsins. Reikningsskilanefnd tekur til umfjöllunar álitsefni í reikningsskilum og gefur út álit sitt á þeim og kynnir félagsmönnum.  Álitsgerðir sínar getur nefndin sent Reikningsskilaráði til umfjöllunar eða umsagnar. Álit, sem Reikningsskilanefnd óskar að verði samþykkt sem álit FLE, skulu send félagsmönnum og Reikningsskilaráði, og þessum aðilum gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan hæfilegs frests.  Að loknum þeim fresti skal nefndin taka málið fyrir að nýju, ásamt þeim athugasemdum sem fram hafa komið.  Álitsgerðir, sem eftir þá athugun hljóta samþykki meirihluta nefndarmanna, skulu lagðar fyrir aðalfund eða félagsfund sem ákveður hvort þær skuli samþykktar sem álit félagsins, og skulu þær hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna.  Slíkar álitsgerðir skulu að því loknu sendar Reikningsskilaráði. Tillögur að reglum um gæðaeftirlit, sem Gæðanefnd leggur fram, skulu kynntar á félagsfundi og síðan sendar félagsmönnum, svo þeim gefist kostur á að koma að athugasemdum innan hæfilegs frests.  Að loknum þeim fresti skal nefndin taka tillögurnar fyrir að nýju ásamt þeim athugasemdum sem fram hafa komið.  Tillögur, sem eftir þá athugun hljóta samþykki meirihluta nefndarmanna, skulu teknar til afgreiðslu á aðalfundi eða félagsfundi, sem boðað er til með sama hætti og til aðalfundar.  Þær tillögur sem hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna skulu svo fljótt eftir fundinn, sem því verður við komið, kynntar sem reglur félagsins um gæðaeftirlit.  14. gr. Á aðalfundi skal kjósa einn mann í senn til þriggja ára í hverja fastanefnd félagsins samkvæmt töluliðum 2-5 í 12. gr. samþykktanna.  Auk þess skal aðalfundur kjósa einn varamann í hverja fastanefnd til eins árs í senn. Í Álitsnefnd skal kjósa tvo menn og einn varamann, en í nefndinni eiga sæti, auk þeirra, formaður stjórnar FLE, varaformaður og fyrrverandi formaður. Í Álitsnefnd eiga því sæti fimm félagsmenn en þrír í öðrum fastanefndum.  Forfallist nefndarmaður á kjörtímabili skal stjórnin skipa mann í hans stað. 15. gr. Sem fyrst eftir að kosið og skipað hefur verið í fastanefndir skal stjórn FLE boða til funda í nefndunum.  Á fyrstu fundum skulu kosnir formenn nefndanna og ritarar hverrar einstakrar nefndar. Fastanefndir skulu halda gerðabækur um fundi sína.  Auk venjulegra bókana fundargerða skal í upphafi starfsárs leitast við að koma saman starfsáætlun fyrir hverja fastanefnd og taka saman meginþætti starfa í lok starfsárs.