4. Fundir og fundarsköp

16. gr. Formaður kveður stjórnina til funda þegar hann telur þess þörf eða einn meðstjórnenda óskar þess. 17. gr. Stjórninni er skylt að halda félagsfundi eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Til félagsfunda skal stjórnin boða með bréfi til hvers einstaks félagsmanns með hæfilegum fyrirvara.  Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála, er fjallað skal um á fundinum. Fimmti hluti félagsmanna hið fæsta hefur rétt til að krefjast félagsfundar.  Skal það gert skriflega og greina fundarefni.  Skal stjórnin boða til fundarins með venjulegum hætti, sem haldinn skal innan fjórtán daga frá því að henni barst krafa þar um og geta skal fundarefnis í fundarboði.  Nú verður stjórnin ekki við kröfu um slíkt fundarhald og geta þá þeir, sem fundarins krefjast, boðað til hans sjálfir. 18. gr. Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í nóvembermánuði ár hvert.  Skal boðað til hans bréflega með viku fyrirvara.  Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Aðalfundi stýrir fundarstjóri, sem kosinn er til þess af fundarmönnum og tilnefnir hann fundarritara.  Hann rannsakar í fundarbyrjun, hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan hvort svo sé. Fundarstjóri skal stjórna fundinum samkvæmt samþykktum félagsins og almennum reglum um fundarsköp. Dagskrá aðalfundar skal vera: Kosning fundarstjóra. Skýrsla stjórnar. Lagður fram ársreikningur félagsins til afgreiðslu. Skýrslur fastanefnda. Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins, ef um þær er að ræða. Kosning formanns. Kosning varaformanns. Kosning meðstjórnenda. Kosning endurskoðanda og varaendurskoðanda. Kosning tveggja aðalmanna og varamanns í Álitsnefnd samkvæmt 12. gr. félags- samþykkta. Kosning eins manns til þriggja ára og varamanns til eins árs í Endurskoðunarnefnd. Kosning eins manns til þriggja ára og varamanns til eins árs í Reikningsskilanefnd. Kosning eins manns til þriggja ára og varamanns til eins árs í Menntunarnefnd. Kosning eins manns til þriggja ára og varamanns til eins árs í Ritnefnd. Tillaga stjórnar um árstillag félagsmanna næsta reikningsár. Kosning eins manns til þriggja ára og varamanns til eins árs í Skattanefnd. Kosning eins manns til þriggja ára og varamanns til eins árs í Gæðanefnd. Önnur mál. Atkvæðagreiðslur fara fram eftir því, sem fundarstjóri kveður nánar á um.  Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess. 19. gr. Á fundum félagsins ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum. Hver félagsmaður hefur eitt atkvæði og er óheimilt að veita öðrum umboð til að fara með atkvæði sitt. 20. gr. Haldin skal gerðabók þar sem í skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir.  Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði.  Fundarstjóri og fundarritari undirrita síðan fundargerðina.  Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum. Í sérstaka gerðabók skal einnig skrá skýrslu um stjórnarfundi með sama hætti og undirrita hana allir viðstaddir stjórnarmenn.  5. Fjármál  21. gr. Félag löggiltra endurskoðenda er ekki rekið í hagnaðarskyni, heldur skal nota allar eignir og tekjur þess til að vinna að markmiði þess.  Fjárhagur FLE er óháður fjárhag einstakra félagsmanna.  Enginn félagsmaður á hlutdeild í eignum félagsins né er nokkur þeirra ábyrgur fyrir greiðslum skuldbindinga þess. Að því leyti sem til skattlagningar kemur er félagið sjálfstæður skattaðili. 22. gr. Reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst. 23. gr. Aðalfundur ákveður árstillag félagsmanna fyrir hvert ár fyrirfram.  Skal stjórnin leggja fram tillögu þar að lútandi. Stjórn félagsins er heimilt að lækka árstillag þeirra félagsmanna, sem ekki reka endurskoðunarstarfsemi, eða eru starfsmenn slíkra. Félagsmenn 70 ára og eldri greiði ekki árstillag til félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að fella niður árstillög, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Nú hefur félagsmaður eigi greitt árstillag sitt fyrir tvö reikningsár.  Skal þá stjórnin fella hann af félagaskrá, sbr. 6. gr.  Félagsréttindi öðlast hann á ný, er hann hefur greitt skuld sína við félagið. Inntökugjald í félagið er 50% af árstillagi, enda greiði félagsmaður ekki árstillag það reikningsár, er hann gerist félagsmaður. Félagsmaður, sem fer úr félaginu hvort heldur vegna úrsagnar eða af öðrum ástæðum, á ekki endurkröfurétt til greiddra félagsgjalda.