Að verða endurskoðandi
29.03.2012
Hér verður farið yfir það helsta sem þarf til að verða löggiltur endurskoðandi.Hér verður farið yfir það helsta sem þarf til að verða löggiltur endurskoðandi.
Til að fá titilinn löggiltur endurskoðandi þarf þetta til skv. lögum um endurskoðendur nr. 79/ 2008
Eiga lögheimili hér á landi, eða vera ríkisborgari á Evrópska Efnahagssvæðinu eða aðildarríkis stofnsamnings fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja.
Vera lögráða og hafa haft forræði á búi sínu síðastliðin þrjú ár.
Hafa óflekkað mannorð svo sem áskilið er til kjörgengis til Alþingis.
Hafa lokið meistaranámi í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennt er af endurskoðendaráði.
Hafa starfað að lágmarki í þrjú ár undirhandleiðslu endurskoðanda hjá endurskoðunarfyrirtæki.
Hafa staðist löggildingarpróf.
1. Lögheimili:
Samkvæmt lögheimilislögum er lögheimili sá staður, þar sem maður hefur fasta búsetu. Föst búseta er á þeim stað þar sem maður hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er. Þetta þýðir að lögheimili manns skal jafnan vera þar sem hann býr á hverjum tíma. Ef aðili er ekki ríkisborgari á Íslandi en kemur frá því svæði sem að ofan greinir skal hann gangast undir og standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt.
2. Vera lögráða
Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 þá verður fólk lögráða við 18 ára aldur. Lögráða er samheiti yfir það að vera sjálfráða og fjárráða. Ólíkt því sem áður var, þá er sjálfræðis- og fjárræðisaldur nú 18 ár en áður fyrr varð fólk sjálfráða 16 ára og fjárráða 18 ára. Lögræði þýðir fyrst og fremst að aðili ber réttindi og skyldur fullorðins manns og er því laus undan valdi foreldra og forráðamanna og ákvæðum barnalaga. Þess í stað fylgir lögræði meiri réttindi og skyldur gagnvart ríkisvaldinu.
3. Óflekkað mannorð
Óflekkað mannorð er hugtak í íslenskum lögum sem skilgreint er í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis [1] frá árinu 2000:Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar. Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.
4. Um meistaranámið:
Endurskoðendaráð er sá aðili sem viðurkennir meistaranám. Í aðalatriðum má segja að eftirfarandi nám sé viðurkennt:
Á Íslandi:
* Háskóli Íslands: ? Meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun lýkur með prófgráðunni Master of Accounting and Auditing (MAcc). Meistaranámið er fjögurra missera nám.
*Háskólinn í Reykjavík: Meistaranám í reikningshaldi og endurskoðun (MAcc) hentar þeim sem stefna að löggildingu sem endurskoðendur. Námið er 120 ECTS einingar og tekur tvö ár (fjórar annir).
Á Norðurlöndum og í löndum Evrópska efnahagssvæðinu:
Almennt er meistaranám í reikningshaldi og endurskoðun (MAcc) frá háskólum á þessu svæði viðurkennt.
Endurskoðendaráð getur veitt einstaklingu sem lokið hafa öðru háskólanámi með endurskoðun sem kjörsvið undanþágu f´ra ákvæði 4. töluliðar enda telji endurskoðendaráð sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á þeim álefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra.
Ef þú ert í einhverjum vafa varðandi þitt nám þá er best að hafa beint samband við formann ER Bjarnveigu Eiríksdóttur bjarnveig@evropulog.is
5. Um starfsnámið
Til þess að geta farið í löggildingaprófið þarf viðkomandi að hafa starfað að lágmarki þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun ársreikninga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki. Endurskoðunarfyrirtæki ráða því til sín nema og þurfa að tilkynna FLE það sérstaklega en félaginu er skylt að halda skrá yfir nema svo hægt sé að staðfesta þetta þriggja ára starfstímabil.
Varðandi kjör nema hjá endurskoðunarfyrirtækjum þá eru þau eins misjöfn og fyrirtækin eru mörg. Launakjör eru mismunandi og stuðningur fyrirtækja við undirbúning löggildingarprófa er einnig á mismunandi vegu. Sum fyrirtækin gefa nemum tækifæri til undirbúnings í vinnutíma og þá í mislangan tíma, greiða próftökugjöld og veita mönnum aðgengi að námskeiðum og sérfræðingum eða annan ótilgreindan stuðning. Flest fyrirtækjanna ráða einnig nema í hlutastarf með skóla.
6. Um löggildingarprófið
Til þess að öðlast löggildingu til endurskoðunar verður viðkomandi að standast próf sem prófnefnd annast. Endurskoðendaráð skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Próf skulu haldin að jafnaði einu sinni á ári (venjan er að halda þau í október) og er það ráðherra efnahags- og viðskiptaráðuneytis sem gefur út löggildingarskírteini handa endurskoðanda. Nánar er kveðið á um fyrirkomulag prófa í reglugerð nr. 589/2009 um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.
Núverandi prófnefnd var skipuð af Fjármálaráðherra í júlí 2009, en hana skipa:
Árni Tómasson, formaður
arnitom@simnet.is
Sæmundur Valdimarsson
svaldimarsson@kpmg.is
Sigrún Guðmundsdóttir
sigrun.gudmundsdottir@bdo.is
Próf til löggildingar fara vanalega fram upp úr miðjum október. Prófin eru yfirleitt auglýst í byrjun september og sækja þarf um próftöku til prófstjóra. Eingöngu er um eitt próf að ræða sem tekið er á tveimur dögum, með tveggja daga hvíld á milli. Síðan tekur við prófayfirferð. Próftakendur fá svo að vita það bréflega hvort þeir hafa staðist prófin í annari viku af desember. Formleg útskrift er svo ekki fyrr en um miðjan janúar. Þá þurfa þeir sem staðist hafa prófin að vinna drengskaparheit um að þeir muni af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna rækja það starf sem löggildingin veitir þeim rétt til að stunda og hlíta lögum og öðrum reglum sem starfið varða.
Nýir löggiltir endurskoðendur fá svo boð frá FLE um að koma í heimsókn og vaninn er svo að bjóða þeim á hádegisverðarfund félagsins í febrúar og kynna þá fyrir félagsmönnum.