Aðfaraorð að reglum Reikningsskilaráðs

Undir lok ársins 1991 var sú breyting gerð á lögum nr. 51/1968, um bókhald, að sérstöku Reikningsskilaráði var falið það hlutverk að stuðla að mótun góðrar reikningsskilavenju með kynningu og útgáfu samræmdra reglna sem farið skyldi eftir við gerð reikningsskila.  Samkvæmt lögum nr. 95/1991, um breytingu á bókhaldslögum, skal ráðherra skipa fimm sérfróða menn til fjögurra ára í senn. Einn skal tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda, annar af viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, þriðji af Verslunarráði Íslands, sá fjórði skal vera ríkisendurskoðandi en sá fimmti skal skipaður án tilnefningar. Aðaltilefni þeirrar breytingar á bókhaldslögunum, sem hér um ræðir, var það, að sífellt vaxandi þörf er fyrir aðila sem hefur umboð til þess að setja reglur á sviði reikningsskila. Bókhaldslögin og önnur lagaákvæði, sem fjalla um reikningsskil, eru yfirleitt almenn þannig að nokkurt svigrúm hefur gefist til frásagnar af viðskiptum og atburðum er varða afkomu- og efnahagsmælingar fyrirtækja og annarra aðila. Að nokkru leyti getur verið eðlilegt að reikningsskil séu mismunandi en yfirleitt hefur samræming fleiri kosti en galla. Ljóst er að samræmi í gerð reikningsskila auðveldar lesendum að nema þann fróðleik sem þau flytja. Þá hafa aukin viðskipti á hlutabréfamarkaði einnig stuðlað að auknum skilningi á nauðsyn samræmdra reglna um gerð reikningsskila. Samkvæmt ákvæðum bókhaldslaga taka reglur Reikningsskilaráðs til allra aðila sem bókhaldsskyldir eru samkvæmt þeim lögum. Þó að reglurnar taki samkvæmt þessu ekki til þeirra aðila sem bókhaldsskyldir eru samkvæmt sérlögum, verður þó að ætla að reglurnar geti einnig haft þýðingu fyrir þá aðila.  Hér er m.a. átt við opinbera aðila. Í athugasemdum með frumvarpi til breytingar á bókhaldslögunum segir að ráðið geti tekið upp málefni að eigin frumkvæði eða eftir ábendingum utanaðkomandi aðila. Ráðið skal leita eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum, en gefa síðan út álit eða ákveða reglur um tiltekin mál. Þá er einnig gert ráð fyrir að ráðið geti verið fjármálaráðherra til ráðuneytis um útgáfu reglugerða samkvæmt bókhaldslögunum, eða öðrum stjórnvöldum um mál er varða reikningsskil yfirleitt. Loks segir í áðurnefndum athugasemdum að ráðið skuli í umfjöllun sinni hafa hliðsjón af alþjóðlegum reikningsskilareglum og mun þá sérstaklega vera átt við staðla um gerð reikningsskila sem Alþjóðlega reikningsskilanefndin (International Accounting Standards Committee) setur.  Í þessu sambandi skipta reglur Evrópusambandsins einnig máli.  Þessa er þörf vegna þeirrar auknu samræmingar sem orðið hefur á sviði reikningsskila í heiminum í kjölfar síaukinna alþjóðlegra viðskipta. Reikningsskilaráðið var skipað á árinu 1992.  Ráðið ákvað að fyrsta viðfangsefnið skyldi vera að fjalla um nokkur grundvallaratriði um gerð reikningsskila, en þau hafa ekki verið sett fram með formlegum hætti hér á landi fyrr en nú.  Þá eru einnig skilgreind helstu hugtök sem varða reikningsskilagerð almennt. Reykjavík, 30. maí 1994 Stefán Svavarsson, formaður Árni Ól. Lárusson, Heimir Haraldsson, Sigurður Þórðarson, Snorri Olsen.