Af stjórnaraborði

Menntunarnefnd félagsins stóð fyrir opinni ráðstefnu í október sl. um alþjóðlega reikningsskilastaðla. Það er mál manna að ráðstefnan hafi tekist afar vel, en þátttakendur voru um 180. Reikningsskiladagur Kominn til að vera Menntunarnefnd félagsins stóð fyrir opinni ráðstefnu í október sl. um alþjóðlega reikningsskilastaðla. Það er mál manna að ráðstefnan hafi tekist afar vel, en þátttakendur voru um 180. Aðal fyrirlesari ráðstefnunnar var prófessor Geoffrey Whittington frá Alþjóðlega reikningsskilaráðinu, en auk hans héldu fyrirlestra Stefán Svavarsson endurskoðandi og dósent og Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallar Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem Félag löggiltra endurskoðenda stendur með formlegum hætti fyrir reikningsskiladegi.  Í ljósi þess hversu vel tókst til hefur stjórn félagsins ákveðið að slíkur dagur verði fastur liður í starfsemi félagsins. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar Með tilskipun Evrópusambandsins nr 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla í ríkjum evrópska efnahagssvæðisins er ljóst að lögleiða verður tilskipunina hér á landi.  Af því leiðir að þýða verður og gefa út staðlana fyrir ársbyrjun 2005. Evrópusambandið hefur markað þá stefnu að skráð félög á verðbréfamörkuðum skuli frá og með árinu 2005 gera samstæðureikninga sína samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Þessar breytingar munu hafa víðtæk áhrif á reikningsskil fyrirtækja á evrópska efnahagssvæðinu og munu þar af leiðandi einnig hafa áhrif hér á landi. Ein megin ástæða þessa er að sívaxandi alþjóðaviðskipti hafa leitt til þess að fjármálamarkaðurinn gerir þær kröfur til fyrirtækja að þau hagi reikningsskilum sínum á samræmdan hátt. Hafinn er undirbúningur vegna innleiðingar staðlanna og hefur Fjármálaráðuneytið falið Reikningsskilaráði að hafa yfirumsjón með þýðingu þeirra. Reikningsskilaráð mun jafnframt leita til sérfróðra aðila sem og til endurskoðunarfyrirtækja um að leggja hönd á plóginn. Fjármálaráðuneytið mun hafa yfirumsjón með innleiðingunni sjálfri og breytingu laga því samfarandi.  Ráðuneytið hefur skipað starfsnefnd í því sambandi og hefur Heimir Haraldsson endurskoðandi verið skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin mun starfa í nánu samstarfi við samráðshóp hagsmunaaðila sem hefur verið skipaður, en hópurinn mun verða faglegur umsagnaraðili um tillögur starfsnefndarinnar. Tveir til þrír aðilar úr hópi hagsmunaaðila munu eiga sæti í starfsnefndinni ásamt formanni. Fulltrúi FLE í samráðshópnum er Jón S. Helgason formaður reikningsskilanefndar félagsins. Meginhlutverk starfsnefndarinnar og samráðshópsins verður að komast að niðurstöðu um hvort skráðum fyrirtækjum hér á landi verður gert skylt eða heimilt að semja samstæðureikninga sína í samræmi við staðlana og hvort öðrum fyrirtækjum verði það einnig heimilt eða skylt. Einnig skal starfshópurinn taka afstöðu til þess hverjum skuli falið eftirlit með gerð þeirra reikningsskila sem falla undir staðlana. Öllu þessu ferli þarf að vera lokið fyrir árslok 2004 þannig að það er ljóst að alþjóðleg reikningsskil verða ofarlega í huga okkar næsta árið. Framkvæmd gæðaeftirlits Á nýafstöðnum aðalfundi félagsins  var lögð fram tillaga að reglum um framkvæmd gæðeftirlits FLE, en samkvæmt samþykktum félagsins skal gæðanefnd móta og hafa yfirumsjón með gæðaeftirliti innan félagsins.  Öllum félagsmönnum hefur verið sent dreifibréf þar sem óskað er eftir athugasemdum við framlagðar tillögur fyrir 1. mars 2004. Í framhaldi af því mun gæðanefndin móta nánari reglur um framkvæmd gæðaeftirlitsins sem verða síðan lagðar fyrir félagsmenn og endanlega tilbúnar og samþykktar á starfsárinu. Formlegt gæðaeftirlit verði síðan tekið upp á árinu 2005, sem skal ná til allra félagsmanna. Stjórn félagsins hvetur félagsmenn til að senda ábendingar og athugasemdir ef einhverjar eru fyrir 1. mars 2004, þannig að nefndin geti unnið fljótt og vel við endanlega mótun á reglunum. Handbók endurskoðenda Heimasíðan Á árinu 1996 gaf FLE út handbók endurskoðenda, en bókin er nú uppseld.  Í formála bókarinnar kemur fram að galdur hennar felist í því að þar sé efni safnað saman á einn stað sem nýtist endurskoðendum við dagleg störf, þar sem það er á handhægu og aðgengilegu formi. Það er álit stjórnar FLE að tími slíkra handbóka sé liðinn og hefur því mælst til þess við ritnefnd félagsins og fagnefndir að heimasíða félagsins verði tekin til gagngerar endurskoðunar og hún nýtt m.a. í þeim tilgangi sem handbókin hefur þjónað til þessa. Haustráðstefna Aðalfundur Haustráðstefna félagsins var haldin dagana 7.-8.nóvember í höfuðstað Norðurlands, Akureyri. Þrátt fyrir að veðurguðirnir settu strik í reikninginn, þannig að flugsamgöngur lágu niðri í heilan sólarhring, var þátttaka all góð og þótti ráðstefnan takast mjög vel. Helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru reikningsskil sveitarfélaga, atvinnuþróun á Akureyri og síðast en ekki síst innleiðing alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Aðalfundur félagsins var haldinn á laugardeginum 8. nóvember og er honum gerð nánar skil hér í blaðinu. Að kveldi aðalfundardags var síðan haldin árshátíð FLE á hótel KEA, þar sem heiðursgestur kvöldsins var Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri Akureyrar. Afmæli Það var nýkjörnum formanni félagsins mikið ánægjuefni að eitt af hans fyrstu verkefnum var að heimsækja og færa elsta núlifandi félaga okkar, Ólafi J. Ólafssyni endurskoðanda, kveðjur FLE í tilefni af 90 ára afmæli hans þann 9. nóvember sl. Ólafur hlaut löggildingu  árið 1956 og hætti störfum sem endurskoðandi um 1990. Ólafur bað um góðar kveðjur og þakklæti til allra félagsmanna og er því hér með komið á framfæri. Lokaorð Nýkjörin stjórn FLE kom saman til síns fyrsta fundar þann 19. nóvember sl. Síðan þá hafa formaður og varaformaður átt fundi með öllum fastanefndum félagsins í þeim tilgangi að móta starfið framundan á komandi starfsári. Ljóst er að starfið mun í megin dráttum fylgja þeim línum sem lagðar hafa verið undanfarin ár, þó áherslur breytist milli ára. Mál málanna á næsta ári verður vinna við innleiðingu alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna, eins og fram hefur komið. Einnig mun mótun reglna um framkvæmd gæðaeftirlits og tillögur að nýjum siðareglum FLE verða til umfjöllunar hjá stjórn og nefndum. Eins og að framan greinir mun handbókin og heimasíða FLE koma til skoðunar. Fyrir utan þau atriði sem hér eru talin upp eru ýmis mál og verkefni sem koma til kasta nefnda og stjórnar, og er ég þess fullviss að þeir einstaklingar sem þar hafa verið kosnir til starfa munu leysa þau vel af hendi. Að lokum vil ég þakka öllum félagsmönnum ánægjulegt samstarf á liðnu ári og óska þeim og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.