Af stjórnborði

Ímynd endurskoðunarstarfsins Nokkur umræða hefur átt sér stað á undanförnum misserum um ímynd endurskoðunarstarfsins og hvernig megi breyta henni. Virðist mér að ímynd enduskoðandans geti orðið undir í samkeppni og samanburði við önnur þau störf sem hugsanlegir endurskoðendur framtíðarinnar hafa úr að velja. Niðurstaðan verði sú að besta fólkið muni velja sér annan starfsvettvang og staða endurskoðenda í þjóðfélagi framtíðarinnar muni líða fyrir það. En hver er þessi ímynd? Hvað er það sem í hugum ungs fólks, sem er að hefja nám á viðskiptasviðinu, lýsir best starfi endurskoðandans? Auðvitað væri best að kanna það hjá þessu fólki sjálfu en sú mynd sem ég hef búið mér til er eitthvað í þessa veru: Til þess að verða endurskoðandi þarf að klára cand. oecon próf í HÍ sem er orðið gamaldags fjögurra ára nám þegar allar aðrar brautir bjóða upp á þriggja ára nám með möguleika á Masters gráðu í framhaldinu. Síðan þarf að komast í vinnu hjá endurskoðunarfyrirtæki þar sem puða þarf á lúsarlaunum í þrjú ár áður en sá heiður hlýst að fá að þreyta löggildingarpróf. Ekki þarf að láta sig dreyma um að klára það á skemmri tíma en tveimur til þremur árum og í hvert sinn þarf að leggjast í próflestur í svona tvo mánuði  lúsarlaunalaust. Ef ekki gengur að klára prófin er því komið að því að finna sér nýjan starfsvettvang, svona um þrítugsaldurinn. Ef dæmið gengur hins vegar upp heldur puðið áfram á eilítið hærri launum en með vinnutíma sem reynir á þanþolið í fjölskyldulífinu og er löngu dottinn úr tísku.Með tíð og tíma getur fólk orðið meðeigandi ef Guð og lukkan lofar, kjörin batna, en eru kannski ekkert sérstök og lífsmunstur vinnualkans heldur áfram. (Grein þessi er skrifuð á laugardagsmorgni um miðjan desember). Í ágætu framsöguerindi á ráðstefnu FLE í nóvember vakti Margrét Sanders máls á því að þrátt fyrir samkeppni um starfsfólk eiga endurskoðunarfyrirtækin (og stofurnar) fleiri sameiginlega hagsmuni en sérhagsmuni þegar kemur að því að laða ungt fólk til starfa. Samkeppni stéttarinnar á ekki að vera innbyrðis heldur við aðrar stéttir og atvinnugreinar sem eru að keppa við okkur um besta fólkið. Besta fólkið á að velja endurskoðunarstarfið umfram önnur störf. Til þess þurfum við að breyta ímyndinni. En hvernig verður ímyndin bætt? Ég tel að besta leiðin sé sú að leiða unga fólkinu fyrir sjónir hvernig endurskoðunarfyrirtækin eru að breytast frá því að vera einhvers konar svitasjoppur arðrændra nema í starfsþjálfun í það að verða spennandi vinnustaður þar sem boðið er upp á fjölbreytileg störf við endurskoðun, skattamál, fjármálaráðgjöf, tölvumál og ýmis konar rekstrarráðgjöf. Með þeim breytingum sem orðið hafa á undanförnum árum á rekstri endurskoðunarfyrirtækjanna held ég að grundvöllur hafi skapast til þess að breyta ímyndinni. Fyrirtækin eru orðin alhliða þekkingarfyrirtæki. Til dæmis geta fyrirtækin boðið þeim endurskoðunarnemum sem ekki klára löggildingu eða verða fráhverfir starfinu ýmis önnur störf á fjölbreyttu sviði. Fyrirtækin þurfa að hafa fjölskyldustefnu, þ.e. stefnu sem tekur tillit til þarfa nútímafjölskyldunnar. Launamynstrið hefur líka verið að breytast þannig að ég tel að fyrirtækin séu orðin nokkuð samkeppnisfær á því sviði. Kannanir hafa að auki sýnt að fyrir starfsmenn eru það önnur atriði en laun sem vega þyngst í starfsánægju starfsmanna. Stjórn FLE hefur ákveðið að vinna að framgangi þessa máls þar sem um hagsmunamál allrar stéttarinnar er að ræða. Meðal annars hefur undirbúningur verið hafinn að útgáfu sérstaks tölublaðs FLE frétta sem beinast mun að ungu fólki sem er að hefja háskólanám eða ljúka stúdentsprófi. Er stefnt að því að þetta tölublað komi út snemma í vor og verði dreift víða í háskólum og framhaldsskólum. Einnig hefur verið leitað aðstoðar sérfræðinga í kynningarmálum til að koma stéttinni og því sem fram fer á vegum félagsins á framfæri. Ekki má gleyma væntanlegum bæklingi sem er í undirbúningi á vegum endurskoðunarnefndar en honum er ætlað að kynna störf endurskoðandans fyrir þeim hópi sem kaupir þjónustu okkar. Útgáfumál FLE. Ekki þarf að fjölyrða um það að á ýmsu hefur gengið í útgáfumálum félagsins á undanförnum árum. Tímaritið Álit hefur ekki komið út í nokkur ár og fyrir rúmlega tveimur árum var ákveðið að gera veg FLE frétta meiri en áður, en leggja útgáfu Álits til hliðar í bili. Þetta hefur ekki breytt þeirri staðreynd að erfiðlega hefur gengið að halda útgáfunni gangandi, þar sem erfitt er að fá greinar í útgáfuna o.s.frv. Í ljósi þessa og í því markmiði að efla til muna útgáfustarfsemi á vegum félagsins hefur stjórnin í samráði við ritnefnd hafið könnun á því að fá liðsinni fagmanna á þessu sviði til að sjá um útgáfu FLE frétta. Vonast er til þess að hægt sé að ná þessu markmiði án verulegs kostnaðarauka fyrir félagið, t.d. með því að fjármagna þessa aðstoð með sölu auglýsinga. Jafnframt er stefnt að því að auka útbreiðslu FLE frétta og skilgreina markhópa sem hafa áhuga á störfum endurskoðunarfyrirtækjanna og því sem starfsmenn þeirra hafa fram að færa. Vonast er til þess að árangur þessarar nýbreytni komi í ljós snemma á næsta ári. Gæðastjórnun gæðaeftirlit. Rétt er að minna félagsmenn á að á síðasta aðalfundi voru samþykktar leiðbeinandi reglur um gæðastjórnun sem dreift var til félagsmanna með aðalfundargögnum í byrjun nóvember. Þar sem engar breytingar voru gerðar á tillögu endurskoðunarnefndar verða reglurnar ekki sendar aftur til félagsmanna en hægt er að nálgast þær á skrifstofu félagsins. Jafnframt voru á aðalfundinum samþykktar reglur um gæðaeftirlit sem fela í sér að gæðanefnd félagsins mun framkvæma gæðaeftirlit hjá þeim endurskoðunarfyrirtækjum sem endurskoða eitt eða fleiri þeirra fyrirtækja sem skráð eru á aðallista eða vaxtarlista Verðbréfaþings Íslands. Önnur endurskoðunarfyrirtæki geta einnig óskað eftir gæðaeftirliti nefndarinnar. Þetta starf mun að mestu verða unnið á vordögum. Nafn félagsins Í grein sinni í síðasta tölublaði FLE frétta benti Þorvarður Gunnarsson fyrrverandi formaður á að rétt væri að huga að nafni félagsins. Samþykktir félagsins nota orðið endurskoðandi og sömuleiðis eru núverandi lög um endurskoðendur. Löggiltra er því í raun ofaukið í nafni félagsins og benda má á að ýmsir endurskoðendur hafa fellt niður fyrri hlutann af starfsheiti sínu í áritun ársreikninga. Í því markmiði að skapa nauðsynlega umræðu um hugsanlega breytingu á nafni félagsins læt ég hér fylgja nokkrar hugmyndir sem upp hafa komið í umræðu um þetta mál: