Áfangainnlaun og verklokaaðferð

Fulltrúar FLE og Skattsins eru með sameiginlegan vinnuhóp sem fundar tvisvar á ári til að ræða ýmis mál er snúa að skattskilum, skattframkvæmd og fleiru. Fulltrúar FLE í þessum vinnuhópi eru, auk framkvæmdastjóra FLE, félagsmennirnir Steingrímur Sigfússon, formaður skattanefndar FLE, Eymundur Sveinn Einarsson, fyrrverandi varaformaður félagsins og Elín Hanna Pétursdóttir, núverandi varaformaður. Fundunum stýrir Elín Alma Arthursdóttir vararíkisskattstjóri.

Ýmsar ábendingar og tillögur frá FLE eru í skoðun hjá Skattinum. Má þar nefna atriði sem snúa að tilteknum reitum, villumeldingum og ábendingum á skattframtali, t.d. ef fjárhæð arðs á framtali er ekki rétt, skráningu og afskráningu endurskoðanda og margt fleira.

Á fundi hópsins nú í mars kom fram að í samræmi við úrskurð yfirskattanefndar nr. 141/2022 væri það niðurstaða ríkisskattstjóra að ekki sé heimilt að beita verklokaaðferð í skattskilum en áfangainnlausn í reikningsskilum þegar kemur að langtímaverkefnum en í fyrrnefndum úrskurði er rætt um þá meginreglu að skattskil skuli taka mið af færslum bókhalds og upplýsingum í ársreikningi að því leyti sem annað leiðir ekki af skattalögum. Fyrirliggjandi skattaleg uppgjör sem byggja á verklokaaðferð renni sitt skeið við sölu viðkomandi eigna.

Á fundinum kom fram að það væri æskilegt að fella úr framtali reit 4360 Skattaleg leiðrétting á áfangainnlausn tekna og reit 4370 Skattaleg leiðrétting vegna verklokaaðferðar.