Aflögð rekstrarstarfsemi

13.  Eftirfarandi tvö tilvik valda því að rekstrarstarfsemi telst vera aflögð: a) hafi fyrirtæki selt með formlegum hætti tiltekna rekstrarstarfsemi á viðkomandi uppgjörstímabili, eða b) hafi stjórn fyrirtækis samþykkt að leggja niður tiltekna starfsemi og tilkynnt þá ákvörðun. 14. Þótt ekki sé sérstaklega í lögum um ársreikninga fjallað um þau áhrif á rekstur fyrirtækis sem það kann að hafa að hætta tiltekinni rekstrarstarfsemi, má samt ætla að það samrýmist góðri reikningsskilavenju að greina frá þessum áhrifum í rekstrarreikningi fyrirtækis.  Gagnstætt því sem á við um óreglulega rekstrarliði, þá geta stjórnendur fyrirtækis yfirleitt ákveðið hvort tiltekin starfsemi er lögð niður. Augljóslega getur það skipt lesendur reikningsskila miklu að fá upplýsingar um hvort starfsemi tiltekins rekstrarþáttar, sem gæti verið dótturfélag eða deild, verður haldið áfram. Af þeim sökum er þess krafist að áhrifin af hinni aflögðu rekstrarstarfsemi komi skilmerkilega fram. 15.  Fyrirtæki skal veita eftirfarandi upplýsingar um aflagða starfsemi ef hún fullnægir skilyrðum 13. töluliðs: a) lýsingu á hinni aflögðu rekstrarstarfsemi, b) dagsetningu ákvörðunar um að starfsþáttur verði lagður af,  c) tímann sem ætla má að það taki að leggja starfsemina niður, d) bókfært verð eigna og skulda er varða hina aflögðu starfsemi, e) tekjur, gjöld,  hagnað eða tap af aflagðri starfsemi ásamt skattalegum áhrifum, og f) greiðsluáhrif hinnar aflögðu starfsemi og áhrif hennar á flokka yfirlits um sjóðstreymi. 16.  Það fer eftir atvikum hversu ítarleg frásögnin þarf að vera um ofangreind atriði.  Í sumum tilvikum er um einfalda aðgerð að ræða og engum sérstökum vandkvæðum er bundið að leggja niður tiltekinn rekstrarþátt.  Í öðrum tilvikum getur verið talsvert flókið mál að leggja niður starfsemisþátt og það auk þess tekið nokkurn tíma.  Meginmál er að lesandi reikningsskila fái greinargóða lýsingu á áhrifum þess að tiltekinni starfsemi er hætt.  Hér er ekki aðeins átt við áhrif á tekjur og gjöld, heldur einnig áhrif í efnahagsreikningi.  Sé ekki unnt að veita ofangreindar upplýsingar í reikningsyfirlitunum, þ.e. rekstrarreikningi, efnahagsreikningi og sjóðstreymi, skal veita frekari upplýsingar í skýringum með reikningsskilum. Til samræmis við meðhöndlun á skattalegum áhrifum óreglulegra rekstrarliða er gerð krafa um að skattaleg áhrif af aflagðri rekstrarstarfsemi komi skýrt fram.   17.  Hafi ákvörðun um að leggja niður tiltekinn starfsþátt verið tekin eftir dagsetningu reikningsskila en áður en reikningsskilin eru samþykkt af stjórn, skal greina frá áhrifum aflagðrar starfsemi í samræmi við reglur þessar.   18.   Samkvæmt þessari reglu er óheimilt að flokka tekjur og gjöld sem reglulega liði ef fyrir liggur, eftir dagsetningu reikningsskila, að samsvarandi rekstrarliðir muni ekki endurtaka sig á næsta rekstrartímabili.  Það er sem sé ekki skilyrði fyrir flokkun rekstrarliða að tiltekinni rekstrarstarfsemi hafi verið hætt á meðan rekstrartímabilið stóð yfir; ákvarðanir sem teknar eru eftir dagsetningu reikningsskila en áður en þau eru formlega samþykkt af stjórn og varða framtíðarrekstur geta leitt til breytinga á flokkun tekna og gjalda.   19.  Hafi rekstraraðili selt tiltekinn rekstrarþátt og þar með hætt honum skal skýra frá ágóða eða tapi af sölunni miðað við bókfært verð eigna og yfirtekinna skulda.  Þá skal upplýsa um þýðingarmiklar breytingar á greiðsluflæði vegna slíkrar sölu, ef við getur átt.  Taki tíma að leggja rekstrarstarfsþátt niður skal skýra frá áhrifum aflagðrar starfsemi á rekstur á meðan verkefninu er ekki að fullu lokið. 20.  Samkvæmt þessari grein skal ekki einungis veita upplýsingar um tekjur og gjöld þess rekstrarþáttar sem verður lagður af, heldur einnig um bókhaldslegan ávinning eða tap af sölu eigna þegar svo ber undir.  Þá skal einnig veita upplýsingar um breytingar á greiðsluflæði á tímabilinu og næstu tímabilum á meðan enn er ekki lokið öllum verkefnum sem varða þá starfsemi sem hefur verið hætt.   21.  Hætti fyrirtæki við að leggja starfsþátt í rekstri niður, sem áður hafði verið sýndur sem aflagður rekstrarþáttur, skal frá því skýrt í reikningsskilum og áhrifum þess á rekstur og efnahag. 22.  Fjárhagslega endurskipulagningu og rekstrarliði sem henni tengjast má ekki flokka sem aflagða starfsemi nema þeir falli að skilgreiningum í reglum þessum. 23.  Aflagða starfsemi má ekki flokka sem óreglulega rekstrarliði. 24.  Birta skal samanburðarfjárhæðir fyrri ára sem svara til rekstrar aflagðrar starfsemi. Þá skal einnig í árshlutareikningsskilum skýra frá áhrifum aflagðrar rekstrarstarfsemi. 25.  Þótt tekjur og gjöld á einu ári séu flokkuð sem regluleg starfsemi gæti það gerst á næsta rekstrartímabili að sömu rekstrarliðir séu flokkaðir sem aflögð rekstrarstarfsemi. Til þess að samanburðarfjárhæðir í rekstrarreikningi séu sambærilegar við rekstur á því ári sem ákvörðun er tekin um að leggja niður einhvern rekstrarþátt, verður að breyta samanburðarfjárhæðum miðað við flokkun tekna og gjalda árið á undan.  Kostnað af fjárhagslegri endurskipulagningu sem ber að sýna sem sjálfstæðan gjaldalið í rekstrarreikningi meðal reglulegra gjalda en einnig væri unnt að upplýsa um hann í skýringum án þess að sérgreina hann í rekstrareikningi.  Loks er kveðið á um það í reglum þessum að hafi ákvörðun um að leggja niður tiltekna starfsemi verið breytt og frá því hafi verið greint í fyrri reikningsskilum, skal skýra frá áhrifum þess á reglulegan rekstur á því reikningstímabili sem sú ákvörðun er tekin.