Áhættustýring og innra eftirlit

Í starfsemi fjármálafyrirtækja hefur vaxandi áhersla verið lögð á áhættustýringu og innra eftirlit. Aukin áhersla á þessa þætti hefur komið bæði frá stjórnendum fyrirtækjanna og Fjármálaeftirlitinu. M Í starfsemi fjármálafyrirtækja hefur vaxandi áhersla verið lögð á áhættustýringu og innra eftirlit. Aukin áhersla á þessa þætti hefur komið bæði frá stjórnendum fyrirtækjanna og Fjármálaeftirlitinu. Með fullnægjandi innra eftirliti og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum aukast líkur á að starfsemi og fjárhagsstaða þeirra séu í ásættanlegu horfi með hliðsjón af hagsmunum viðskiptamanna. Reynslan sýnir að undanfari erfiðleika í starfsemi fjármálafyrirtækja hefur oft verið skortur á yfirsýn stjórnenda, ófullnægjandi markmiðssetning varðandi áhættutöku og veikleikar í innra eftirliti. Hér á eftir verður gerð grein fyrir aðgerðum Fjármálaeftirlitsins á þessu sviði að undanförnu. Í janúar 2002 gaf Fjármálaeftirlitið út leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2002 um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum. Í tilmælunum eru settar fram lágmarkskröfur varðandi innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum. Í tilmælunum er sérstök áhersla lögð á ábyrgð og skyldur stjórna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja. Fyrirmyndin er sótt til grunnreglna um þetta efni sem Basel-nefnd um bankaeftirlit sendi frá sér á árinu 1998. Tilmælin gilda fyrir viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og vátryggingafélög og aðra eftirlitsskylda aðila eftir því sem við getur átt. Tilmælin skiptast í eftirfarandi 6 megin efnisþætti: 1.  Yfirsýn stjórnenda og eftirlitsstarfshættir 1.1. Hlutverk stjórnar: Setja markmið varðandi áhættur í starfseminni. Ákveða mörk varðandi áhættutöku. Eftirlit með áhættum. Eftirfylgni við sett markmið. 1.2. Hlutverk framkvæmdastjóra: Greina, mæla, fylgjast með og hafa eftirlit með áhættum sem starfseminni fylgja. Viðhalda skipuriti sem skýrt tilgreinir ábyrgðarsvið, heimildir starfsmanna og boðleiðir, að tryggja að deiling ábyrgðar sé með fullnægjandi hætti. Móta viðeigandi markmið fyrir innra eftirlit og að fylgjast með að innra eftirlitskerfið sé fullnægjandi og skilvirkt. 1.3. Hlutverk stjórnar og framkvæmdastjóra: Stuðla að góðu starfssiðferði og góðum starfsháttum innan fyrirtækisins. Koma á starfsanda sem leggur áherslu á mikilvægi innra eftirlits. Starfsfólk þarf að hafa skilning á hlutverki sínu í innra eftirlitsferlinu og taka fullan þátt í því. 2.  Greining og mat á áhættum Virkt innra eftirlitskerfi þarf að greina og meta verulega áhættu, sem kynni að hafa neikvæð áhrif á að markmiðum fyrirtækis verði náð. Matið þarf að ná til allra áhættuþátta sem snúa að fyrirtækinu og samstæðu þess og dótturfyrirtækja. 3.  Eftirlitsaðgerðir Eftirlitsaðgerðir séu óaðskiljanlegur hluti af daglegri starfsemi fyrirtækis. Virkt innra eftirlitskerfi krefst viðeigandi eftirlitsskipulags með skilgreindum eftirlits-aðgerðum, á öllum stigum starfseminnar. Aðgerðirnar fái yfirferð á æðsta stjórnunarstigi. Viðeigandi eftirlitsaðgerðir fyrir mismunandi deildir t.d.: hvort áhættumörk séu virt, eftirfylgni vegna frávika frá reglum og athuganir á samþ./afstemmingarkerfum. 4.  Aðgreining starfa Viðeigandi aðgreining starfa. Hagsmunir mismunandi verkefna sama starfsmanns stangist ekki á. Hættu á hagsmunaárekstrum þarf að greina og lágmarka. Starfssvið þar sem slík hætta er til staðar þurfa að vera háð nákvæmu sérstöku eftirliti. 5.  Upplýsingar og samskipti Fullnægjandi og heildstæðar innri fjárhags-, rekstrar- og eftirlitsupplýsingar. Ytri upplýsingar um atburði og skilyrði sem hafa þýðingu við ákvarðanatöku. Upplýsingar þurfa að vera áreiðanlegar, tímanlegar, aðgengilegar og á samræmdu formi. Áreiðanleg upplýsingakerfi, sem ná til allra mikilvægra starfsþátta fyrirtækisins. Áhersla á öryggi upplýsingakerfa, eftirlit og viðlagaáætlanir. Virkar samskiptaleiðir til að tryggja að starfsfólk fylgi markmiðum og starfsaðferðum fyrirtækisins. 6.  Athuganir á innra eftirliti Athuganir á innra eftirlitskerfinu þurfa að vera í höndum óháðs, vel þjálfaðs og hæfs starfsfólks. Niðurstöðum athugana á innra eftirlitskerfinu þarf að beina til bæði stjórnar og framkvæmdastjóra. Veikleika í innra eftirliti þarf að upplýsa án tafar með skýrslugerð til stjórnar og framkvæmdastjóra og þarf þegar í stað að bregðast við þeim. Eitt af mikilvægustu varúðarákvæðum í lögum um fjármálafyrirtæki eru ákvæðin um lágmarks eigið fé og lágmarks eiginfjárhlutfall. Ákvæðið um lágmarks eiginfjárhlutfall felur í sér að eigið fé, eins og það er nánar skilgreint í lögunum, er reiknað sem hlutfall af svonefndum áhættugrunni. Útreikningur á áhættugrunni felur í sér að helstu áhættur fjármálafyrirtækis, svo sem útlánaáhætta og markaðasáhætta, eru vegnar með tilteknum hætti, sem endurspegla á áhættustig sem eiginfjárkrafan miðast við. Eiginfjárákvæðin eru þannig takmarkandi á áhættutöku og eru eitt af þeim tækjum sem stjórnendur nota til að stýra áhættum. Nú er unnið að endurskoðun á þeim alþjóðlegu reglum sem eru fyrirmynd núgildandi eiginfjárákæða í íslenskum lögum og reglum. Samhliða er á vegum Evrópusambandsins unnið að því að semja drög að tilskipunum um þetta efni og hefur Fjármálaeftirlitið fylgst með og tekið þátt í þeirri vinnu. Endurskoðunin miðar að því að eiginfjárreglurnar verði betri mælikvarði á raunverulega áhættustöðu fjármálafyrirtækjanna og ennfremur verður lögð meiri áhersla en áður á að sérhvert fjármálafyrirtæki meti sjálft þá lágmarks eiginfjárstöðu sem það telur nauðsynlegt að hafa með hliðsjón af áhættustöðu fyrirtækisins. Nýju reglurnar munu ennfremur gera kröfu til þess að eftirlitsaðilinn leggi sjálfstætt áhættumat á hvert fjármálafyrirtæki og hvort þörf sé talin á viðbótar eiginfjárkröfu umfram lögbundið lágmark. Fyrirhugaðar reglur munu þannig stuðla að betri áhættustýringu innan fjármálafyrirtækjanna og gera þau betur í stakk búin að takast á við óvænt áföll. Með lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi 1. janúar 2003, fékk Fjármálaeftirlitið heimild til að ákveða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir þau fjármálafyrirtæki sem talin eru hafa ófullnægjandi fjárhagsstöðu með hliðsjón af áhættustigi, enda væru aðrar eftirlitaðgerðir ekki líklegar til að bæta upp misvægi í eiginfjárstöðu og áhættustigi innan hæfilegs frests. Gert er ráð fyrir samkvæmt lagaákvæðinu að mat Fjármálaeftirlitsins á áhættustigi og ákvörðun um hærra eiginfjárhlutfall skuli byggt á nánari reglum sem það setur. Á árinu 2003 vann Fjármálaeftirlitið að samningu draga að slíkum reglum sem birt voru sem umræðuskjal nr. 8/2003. Samkvæmt drögunum er gert ráð fyrir að niðurstöður úr annars vegar áhættumatskerfi og hins vegar álagsprófi verði notaðar sem viðmiðanir við mat á áhættustigi fjármálafyrirtækis. Gert er ráð fyrir að umræddar reglur verði gefnar út á fyrri hluta yfirstandandi árs. Áhættumatskerfið felur í sér að tilteknum áhættuþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækis eru gefnar einkunnir með hliðsjón af fyrirfram ákveðnum viðmiðunum sem í flestum tilfellum byggjast á upplýsingum úr reikningsskilum. Einstökum þáttum er gefið vægi og er á þeim grundvelli reiknuð út vegin heildareinkunn sem endurspeglar áhættustöðu fyrirtækisins. Fyrirmynd að áhættumatskerfinu er sótt til CAMELS áhættumats-kerfisins: C = Capital - Eigið fé A = Assets - Gæði eigna M = Management - Stjórnun E = Earnings - Arðsemi eigin fjár L = Liquidity - Lausafjárstaða S = Sensitivity to market risks Næmni fyrir markaðsáhættum Álagsprófið felur í sér að reiknuð eru út áhrif af lækkun á bókfærðu virði nánar tilgreindra eigna á lögbundið eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis. Um er að ræða 20% lækkun á vaxtafrystum útlánum og fullnustueignum, 25% lækkun á hlutabréfaeign í eigin áhættu og 7% lækkun á markaðsskuldabréfaeign í eigin áhættu. Niðurstaðan úr slíku álagsrófi gefur til kynna hversu viðkvæmt fjármálafyrirtækið er fyrir áföllum af því tagi sem lýst er og nýtist Fjármálaeftirlitinu í mati þess á áhættustigi viðkomandi fyrirtækis. Niðurstöður úr áhættumatskerfinu og álagsprófinu eru gagnlegar við samanburð milli tímabila og milli sambærilegra fjármálafyrirtækja og nýtast Fjármálaeftirlitinu jafnframt við forgangsröðun í eftirliti. Til viðbótar við framangreint um áhættustýringu og innra eftirlit má nefna að Fjármálaeftirlitið hefur unnið að því að þróa svonefndan áhættstýringarramma samkvæmt erlendum fyrirmyndum. Áhættustýringarrammi  Tekjusvið / Dótturfyrirtæki       Tegundir áhættu      Áhættumælingaraðferðir   Áhættustýringaraðferðir  Markaðssvið  Markaðsáhætta        Útlánsáhætta        Rekstraráhætta        Lausafjáráhætta     Um er að ræða að fyrir hvert tekjusvið og dótturfélag fjármálafyrirtækis yrði samin lýsing á helstu áhættum, svo sem útlánaáhætta, markaðsáhætta, lausafjáráhætta og rekstraráhætta. Fyrir hverja áhættutegund yrði ennfremur lýsing á áhættumælingaraðferðum og áhættustýringaraðferðum. Einstökum áhættum og eftirliti með þeim yrðu gefnar einkunnir eftir mikilvægi og þær einkunnir yrðu síðan vegnar saman með hliðsjón af mikilvægi einstakra tekjusviða/dótturfyrirtækja. Niðurstaða úr slíkum útreikningum á að endurspegla áhættustöðu fjármálafyrirtækisins og styrkleika/veikleika í innra eftirliti. Áhættuþættir        Viðskiptaeiningar   Viðskipta-Áhætta  Eftirlits-Áhætta  Vægi   Mikil áhætta 4  4  Mikið  4 Talsverð áhætta 3  3  Meðal  2 Hófleg áhætta 2  2  Lítið  1 Lítil áhætta 1  1   Líklegt er að slíkur áhættustýringarrammi verði grundvöllur að áhættumatskerfi í samræmi við kröfur í fyrirhuguðum nýjum eiginfjárreglum sbr. umfjöllun hér á undan. Hvað varðar innra eftirlit þá er í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 meginreglan sú að við hvert fjármálafyrirtæki skuli starfa endurskoðunardeild og að forstöðumaður slíkrar deildar skuli ráðinn af stjórn fyrirtækisins og fara með innri endurkoðun í umboði stjórnar fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af eðli og umfangi reksturs fjármálafyrirtækis, veitt undanþágu frá starfræskslu slíkrar deildar og sett þeim fyrirtækjum skilyrði sem slíka undanþágu fá. Fjármálaeftirlitið gaf í þessu sambandi út Leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2003 varðandi undanþágu frá starfrækslu endurskoðunardeildar hjá fjármálafyrirætki þar sem kveðið er nánar á um þau skilyrði sem sett eru fyrir slíkri undanþágu. Þar er m.a. gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki undir tiltekinni stærð geti fengið undanþágu frá starfrækslu endurskoðunardeildar gegn því að gerður sé samningur um árlega úttekt á innra eftirliti við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila og að í slíkum samningi sé kveðið á um að framkvæmdar séu reglulega kannanir á eftirfarandi þáttum í innra eftirliti fyrirtækisins: Hvernig staðið er að varðveislu og meðferð fjármuna fyrirtækisins, skráningu skuldbindinga og eftirliti með bókhaldi. Hvort fyrir liggi á hverjum tíma skýrar og greinargóðar skriflegar starfsreglur þar sem verksvið, ábyrgð og heimildir einstakra starfsmanna og stjórnenda komi fram og hvort farið sé eftir þessum reglum. Hvort fyrirtækið hafi sett sér markmið varðandi helstu áhættuþætti, svo sem útlánaáhættu, markaðsáhættu og lausafjáráhættu, og hvernig þeim markmiðum er fylgt eftir.  Hvort í starfsreglum og skipulagi fyrirtækisins sé það innra eftirlit sem komið verður á með góðu móti.  Kanna hvort í starfsreglum sé nægjanlega skilið á milli þeirra starfsmanna sem meðhöndla fjármuni og þeirra sem starfa að bókhaldi.  Einnig þeirra sem sjá um færslu bókhalds og þeirra sem bera ábyrgð á afstemmingu á sömu bókhaldsreikningum. Hvort á hverjum tíma séu til staðar eftirlitsaðgerðir og starfsreglur vegna þeirrar eðlisáhættu sem skapast vegna smæðar fyrirtækisins og skorts á nægilegum aðskilnaði starfa.  Þetta geta verið reglur um lágmarks samfleytt sumarfrí, reglur um reglubundin starfsskipti á milli einstakra starfsmanna, uppáskrift yfirmanna á afstemmingu bókhalds og fyrirvaralausar sjóðstalningar. Með úrtakskönnunum sé könnuð framkvæmd á fjárvörslusamningum, þ.e. að fjárfestingar séu í samræmi við fjárfestingarstefnu samninga og að eignir séu til staðar. Með úrtakskönnunum sé kannaður áreiðanleiki og gæði þeirra skýrslna sem stjórnendur fyrirtækisins og opinber yfirvöld byggja á. Kanna tölvukerfi fyrirtækisins, meðal annars með tilliti til notkunareftirlits og rekstraröryggis. Gerð sérstakra úttekta á dreifingu útlána og vanskila, stöðu stærstu skuldara og stærstu vanskilaaðila og greiðslutrygginga vegna sömu skuldbindinga. Eins og sést af framangreindu eru áhættustýring og innra eftirlit lykilhugtök í starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit opinberra eftirlitsaðila beinist fyrst og fremst að því að þeir þættir séu hverju sinni í ásættanlegu horfi.