Áhrif Covid varðandi skil gagna til Ferðamálastofu
Að undanförnu hafa endurskoðunarfyrirtæki haft samband við FLE varðandi skil gagna til Ferðamálastofu vegna tryggingarfjárhæðar 2020 og þá sérstaklega skil á ársreikningi sem hefur verið vandkvæðum bundið vegna ástandsins sem covid skapar. Hefur það haft veruleg áhrif á möguleika fyrirtækjanna sem og endurskoðenda að vinna að gerð ársreiknings sem og framkvæmd endurskoðunar. Nú er alveg fordæmalaus staða hjá fjölda ferðaþjónustuaðila og ljóst að margir ef ekki flestir munu ekki vera tilbúnir með undirritaðan ársreikning fyrir skilafrestinn sem er í 1. apríl og mikil þörf hjá þessum aðilum að geta lækkað þá tryggingafjárhæð sem er til staðar.
FLE sendi áskorun til Ferðamálastofu 27. mars þar sem hvatt var til að Ferðamálastofa íhugi það alvarlega að veita ferðaþjónustuaðilum rýmri tíma til að skila gögnum í ljósi mikillar óvissu sem og erfiðleika við að ganga frá ársreikningum í ljósi aðstæðna og að frestur verði veittur til 1. maí. Til álita kæmi jafnframt að skila inn staðfestu tekjuyfirliti fyrir árið 2020 af þar til bærum aðilum án þess að ársreikningi 2019 væri skilað samhliða. Svar frá Ferðamálastofu er að finna á þessari slóð en drög að ársreikningi eða tekjuyfirlit getur dugað.