Álit Reikningsskilaráðs vegna breytinga á skattskuldbindingum/sk

Reikningsskilanefnd FLE Suðurlandsbraut 6, 104 Reykjavík. Reykjavík, 26. október 2001. Að ósk reikningsskilanefndar FLE hefur því erindi verið beint til Reikningsskilaráðs að það láti í ljós álit á því hvernig skuli staðið að útreikningi á frestuðum skattskuldbindingum eða þegar svo ber undir, frestuðum skattinneignum, í ljósi þeirrar staðreyndar að lagt hefur verið fram frumvarp til laga til breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, þar sem kveðið er á um lækkun á skatthlutfalli úr 30% í 18%. Reikningsskilaráð hefur fjallað um erindi þetta og er niðurstaða ráðsins sú að miða beri útreikning á frestuðum skattskuldbindingum eða frestuðum skattinneignum í 9 mánaða árshlutauppgjöri fyrir árið 2001 við 18% skatthlutfall og hið sama gildir um lengri uppgjörstímabil þess árs.  Þessi niðurstaða byggist á túlkun á 20. og 21. grein í reglu nr. 4 frá Reikningsskilaráðinu um færslu tekjuskatts, þegar jafnframt er höfð í huga frumheimildin fyrir meðhöndlun þess álitaefnis sem erindi yðar fjallar um, þ.e.a.s. staðall Alþjóðlega reikningsskilaráðsins (IASB) nr. 12 um færslu tekjuskatts, sbr. ákvæði 47. gr. þess staðals. Af báðum þessum heimildum má ráða, að frestaða skattskuldbindingu og frestaða skattinneign skal reikna miðað við það skatthlutfall sem líklegt er að verði í gildi þegar sá viðsnúningur á sér stað sem leiðir til breytingar á þessum eignum og skuldum, þ.e. síðari óbeinni innheimtu þeirra eða greiðslu.  Samkvæmt því bæri að nota 18% í því tilviki sem hér um ræðir en ekki 30%, enda verður að telja meiri líkur en minni á því að gildandi skatthlutfalli verði breytt á næstu mánuðum í samræmi við vilja núverandi stjórnvalda eins og hann birtist í tilgreindu frumvarpi.  Í 47. gr. staðals alþjóðlegu nefndarinnar segir að byggja skuli á hlutföllum í lögum eða hlutföllum sem byggja á frumvarpi sem lagt hefur verið fram og telja verður líklegt að verði samþykkt.  Seinni hluti þessa málsliðar er túlkun á orðalaginu substantively enacted, þ.e. ákvæði sem að efni til eru orðin að lögum, þó að formskilyrðum í því sambandi sé ekki fullnægt. Þessi regluskýring er raunar einnig mjög til samræmis við þá reglu reikningshalds að efni máls skipti meira máli en form þess og einmitt þannig stendur á í umræddu tilviki.   Reikningsskilaráð telur að ekki sé ástæða til þess að bíða eftir ársuppgjöri fyrir árið 2001 til þess að breyta útreikningi á umræddum eignum og skuldum. En um leið og Reikningsskilaráð kynnir þessa niðurstöðu er rétt að vekja athygli á því að gild ástæða er til þess að gera lesendum reikningsskila skýra grein fyrir áhrifum breytingarinnar og raunar koma að þeim efa, sem eðli máls hlýtur að vera til staðar um það, hvort umrætt frumvarp ríkisstjórnarinnar verður að lögum.   Afleiðing þess að miða útreikning á frestuðum skattskuldbindingum og frestuðum skattinneignum við 18% fremur en 30% er sú, að beint og rökrænt samband á milli hagnaðar fyrir skatta (eða taps fyrir skattspörun) og hins nýja skatthlutfalls verður ekki til staðar.  Það stafar af tvennu, sem gera verður skýra grein fyrir í árshlutareikningsskilum fyrir 9 mánuði ársins 2001 sem og ársuppgjöri fyrir árið 2001.  Önnur skýringin er sú að skatthlutfall vegna innleystrar afkomu til skatts er 30%, en skattaleg áhrif tímamismunar sem verður til á uppgjörstímabilinu reiknast hins vegar miðað við 18%.  Hin skýringin er sú, að áhrif af breytingu skatthlutfallsins koma fram á þann tímamismun sem hafði samtals orðið til í upphafi tímabilsins, þ.e. í ársbyrjun 2001, og samsvarandi lækkunar hinnar frestuðu skattskuldar eða skattinneignar sem af því stafar, verður að koma fram í rekstrarreikningi. Þessi sundurgreining bókfærðs tekjuskatts í rekstrarreikningi verður að mati Reikningsskilaráðs að koma skýrt fram í reikningsskilum fyrir árið 2001 sem og árshlutauppgjörum sem kunna að verða samin og birt fyrir 9 mánuði ársins eða önnur lengri tímabil eftir því sem við á. Virðingarfyllst, Stefán Svavarsson fh. Reikningsskilaráðs