Breyting á reikningsskilaaðferð

35.  Fyrirtæki má aðeins breyta um reikningsskilaaðferð á grundvelli ákvæða laga um slíka breytingu eða á grundvelli fyrirmæla í opinberum reglum um reikningsskil eða ef önnur aðferð þykir betur eiga við það efnahagslega fyrirbrigði sem aðferðinni er ætlað að mæla.   36.  Meginregla við gerð reikningsskila er samsvörun í gerð þeirra.  Af þeim sökum er mjög þrengt að möguleikum fyrirtækja til þess að breyta um aðferðir við gerð reikningsskila.  Í tveimur tilvikum er það heimilt eða skylt.  Hafi lögum um reikningsskil eða reglum, sem gefnar eru út af til þess bærum aðilum, verið breytt um meðhöndlun tiltekinna reikningsskilaatriða verður að breyta um aðferð og þá í samræmi við þau lög eða reglur sem um breytinguna eru settar.  Breyting á reikningsskilaaðferð takmarkast þó ekki aðeins við þetta tilvik, heldur er einnig heimilt að breyta um aðferð ef hin nýja aðferð þykir eiga betur við.  Samkvæmt þessu er ekki heimilt að breyta um aðferð til þess eins að draga fram æskilega niðurstöðu í reikningskilunum; breytinguna verður að vera unnt að rökstyðja með vísan til skýrari frásagnar og betri upplýsingagjafar.     37. Áhrif reglubreytingar skulu vera afturvirk og koma til breytingar á óráðstöfuðu eigin fé í byrjun þess árs sem breyting er gerð.  Samanburðarfjárhæðum skal breyta til samræmis við hina nýju reikningsskilaaðferð, nema sérstökum vandkvæðum sé bundið að reikna þau afturvirku áhrif út.  Í skýringum skal skýra frá ástæðum fyrir breytingunni. 38.  Hafi breyting á reikningsskilaaðferð veruleg áhrif á rekstur fyrri ára eða síðari ára skal frá þeim áhrifum greint í skýringum.   39.  Með þessari reglu er tekið fram að skýra skuli frá áhrifum aðferðarinnar á reikningsskil fyrri ára.  Það skal gera með breytingum á reikningsyfirlitunum en sé þess ekki kostur verða skýringar að duga.