Krafa um endurskoðun skýrslu um grænt bókhald felld niður
Þann 26. febrúar síðastliðinn tók gildi reglugerð nr. 206/2025 um breytingu á reglugerð nr. 990/2008 um útstreymisbókhald. Um leið féllu úr gildi reglugerð um grænt bókhald, nr. 851/2002 og reglugerð um skil atvinnurekstrar á upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 244/2009. Með því að fella úr gildi reglugerð nr. 851/2002 fellur niður krafa um að skýrsla um grænt bókhald skuli vera endurskoðuð, sbr. 10. gr. þeirrar reglugerðar en rétt er að vekja athygli á því að Umhverfis- og orkustofnun getur t.d. krafist endurskila ef gögn teljast ófullnægjandi. Ef einhverjar spurningar vakna vegna þessa eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við FLE sem getur þá fyrir hönd félagsmanna beint fyrirspurnum til Umhverfis- og orkustofnunar sem sér um framkvæmd reglugerðarinnar.
Vegna þess að reglugerðin var sett nú snemma árs 2025 þá hefur FLE fengið það staðfest hjá Umhverfis- og orkustofnun að upplýsingar fyrir árið 2024 þurfa ekki að vera endurskoðaðar.