Leiðbeiningar um staðfestingu sjálfbærniupplýsinga

Tilskipun um sjálfbærnireikningsskil (e. the Corporate Sustainability Reporting Directive, CSRD) tók gildi í Evrópusambandinu í upphafi árs 2024. Tilskipunin mun verða innleidd á Íslandi og stendur innleiðingarvinnan yfir en það er þó ekki ljóst á þessari stundu hvenær þeirri vinnu lýkur og tilskipunin öðlast lagagildi hér á landi.

Tilskipunin nær til allra stórra félaga auk lítilla og millistórra félaga sem eru útgefendur skráðra verðbréfa. Samkvæmt henni verður krafist staðfestingar á sjálfbærniupplýsingum þeirra félaga sem hún nær til. Gerð er krafa um áritun með takmarkaðri vissu (e. limited assurance) en gert er ráð fyrir að síðar verði krafist staðfestingar með nægjanlegri vissu (e. reasonable assurance). Stjórnvöldum í hverju landi er í sjálfsvald sett að ákveða hvort það verði eingöngu endurskoðendur sem mega staðfesta þessar upplýsingar eða hvort öðrum óháðum staðfestingaraðilum verði einnig heimilt að gera það að uppfylltum skilyrðum.

IAASB (International Auditing and Assurance Standars Board) hefur gefið út drög að staðfestingarstaðli fyrir sjálfbærniupplýsingar (ISSA 5000). Drögin að staðlinum og ýmsar gagnlegar upplýsingar um hann má nálgast hér. Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu IAASB mun endanlegur staðall verða gefinn út fyrir lok þessa árs.

Samkvæmt fyrrnefndri sjálfbærnitilskipun skal Evrópuráðið innleiða staðal (eða staðla) um staðfestingu sjálfbærniupplýsinga eigi síðar en 1. október 2026.

Í sumar voru gefin út drög að leiðbeiningum um staðfestingu sjálfbærniupplýsinga, þegar um áritun með takmarkaðri vissu er að ræða, sem og hvað áritun skuli innihalda. Leiðbeiningarnar byggja að stórum hluta á fyrrnefndum drögum að ISSA 5000.

Leiðbeiningarnar eru ekki bindandi en þeim er ætlað að brúa bilið meðan ekki er búið að innleiða staðal (eða staðla) um staðfestingu sjálfbærniupplýsinga og stuðla að samræmi í vinnu og áritun staðfestingaraðila. Gert er ráð fyrir að endanleg útgáfa leiðbeininganna líti dagsins ljós síðar á þessu ári.

Eins og fyrr segir hefur nýja tilskipunin um sjálfbærnireikningsskil ekki verið innleidd á Íslandi. Það eru hins vegar dæmi um að endurskoðendur hafi staðfest slíkar upplýsingar og því gætu fyrrnefndar leiðbeiningar verið gagnlegar.