Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja er undir
„Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja er undir, fyrirtæki verða að fara að huga að þessu af fullri alvöru – þetta mun verða vendipunktur um hversu samkeppnishæf fyrirtæki eru“ sagði Sæmundur Sæmundsson framkvæmdastjóri EFLU á morgunfundi Félags löggiltra endurskoðenda og Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni sem fram fór 29. apríl. Yfirskrift fundarins var: Ör þróun í heimi upplýsingagjafar – staðfesting á sjálfbærni í rekstri.
Mikil og ör þróun er að eiga sér stað varðandi innleiðingu á og upplýsingagjöf um sjálfbærni í rekstri fyrirtækja á Íslandi og erlendis. Fyrirtæki á Íslandi þyrstir í skýrar línur um hvernig standa eigi að upplýsingagjöf og staðfestingu á sjálfbærni í rekstri. Lagt var upp með að svara því hver staðan er og hvers má vænta á næstu misserum þegar kemur að upplýsingagjöf fyrirtækja um sjálfbærni, að hverju fyrirtæki, stofnanir og endurskoðendur þurfa að huga.
Upptökur frá fundinum má nálgast hér.
Hér má nálgast þær glærur sem borist hafa: glærur Margrétar, glærur Reynis, glærur Mörtu
Á fundinum tóku til máls fulltrúar endurskoðenda, ráðgjafar, sérfræðingur frá hinu opinbera ásamt markaðsaðilum sem töluðu um reynslu fyrirtækja og fjárfesta. Í erindum þeirra mátti skynja að ófjárhagslegir þættir eru orðnir lykilatriði í fjárfestingar ákvörðunarferlinu og í raun var það einróma lagt til af fundagestum að horfið væri frá því að kalla þætti tengda sjálfbærni í rekstri „ófjárhagslega“ þar sem þarna er um lykilupplýsingar í rekstri að ræða. Upplýsingagjöf um sjálfbærni er viðfangsefni sem bæði stór og smá fyrirtæki þurfa að huga að, þrátt fyrir að sterkari kröfur séu á þau sem eru skilgreind sem stór félög og félög á markaði, samkvæmt lögum um ársreikninga.
„Það er brekka framundan en allt hægt ef viljinn er fyrir hendi“ sagði Margrét Pétursdóttir forstjóri og endurskoðandi hjá EY á Íslandi, en hún lagði áherslu á í sínu erindi að um þessar mundir er gríðarlegur hraði á breytingum í þessum málaflokki vegna þess hve þörfin er rík. Þá kom fram í máli hennar að það væri sannarlega ákall frá fyrirtækjum eftir samræmdum viðmiðum þegar kemur að upplýsingagjöf um sjálfbærni frá markaðnum.
Í máli Mörtu Hermannsdóttur sérfræðings í áhættustýringu hjá Eyri Venture Management kom fram að mæla mætti betri árangur fyrirtækja og sjóða sem leggja í rekstri sínum áherslur á sjálfbærni og að aukin krafa sé frá fjárfestum og eftirlitsaðilum um mælanleg og samanburðarhæf sjálfbærni viðmið. Marta lagði einnig áherslu á að þarna séu smærri fyrirtæki og sprotar ekki undanskilin, hjá þeim þurfi sjálfbærni að vera undirliggjandi þema og upplýsingagjöf henni tengd markviss.
Bjarni Herrera ráðgjafi hjá KPMG fór yfir í sínu erindi að bæði eru auknir tekjumöguleikar og möguleikar á kostnaðarhagræði sem felast í því að innleiða sjálfbærni í rekstur, ásamt því að fyrirtæki eru þá betur undirbúin undir þau lög og reglugerðir sem eru í farvatninu bæði hérlendis og á alþjóðavísu. Harpa Theodórsdóttir sérfræðingur frá atvinnuvegaráðuneytinu lagði ríka áherslu á að í þessari þróun er gífurlega mikilvægt að það sé samstarf á milli opinbera geirans og einkageirans og að ákall sé frá báðum geirum eftir gagnsæi, ábyrgð og sameiginlegum ramma.
Frummælendur á fundinum voru þau Margrét Pétursdóttir forstjóri EY á Íslandi, Dr. Reynir Smári Atlason sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum, Marta Hermannsdóttir sérfræðingur í áhættustýringu hjá Eyri Venture Management og Bjarni Herrera úr sjálfbærni teymi KPMG. Þá tóku þátt í panelumræðum Björgvin Ingi Ólafsson frá Deloitte, Harpa Theodórsdóttir frá Atvinnuvegaráðuneytinu, Gunnar Sveinn Magnússon frá EY og Sæmundur Sæmundsson frá EFLU.