Skil á ársreikningum og stjórnvaldssektir

Þann 13. júní barst félaginu tölvupóstur frá ársreikningaskrá um skil á ársreikningum vegna ársins 2023 og álagningu stjórnvaldssekta vegna seinna skila og var pósturinn áframsendur á félagsmenn sama dag.

Í pósti ársreikningaskrár kemur fram að hún muni að morgni þriðjudagsins 1. október taka út lista yfir þau félög sem ekki hafa skilað ársreikningi fyrir miðnætti mánudaginn 30. september og að álagning stjórnvaldssekta muni miðast við þann dag.

Í 120. gr. laga um ársreikninga kemur fram að ársreikningaskrá skuli leggja stjórvaldssektir á þau félög sem vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 109. gr. sömu laga. Þegar frestur skv. 109. gr. til skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn skal ársreikningaskrá leggja á viðkomandi félag stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. og jafnframt krefjast úrbóta. Í fyrrnefndri 120. gr. laganna er fjallað um lækkun stjornvaldssekta. Þar segir að skili félag ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skuli ársreikningaskrá lækka sektarfjárhæðina um 90%. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 60% en ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skuli lækka sektarfjárhæðina um 40%.

Í bréfi ársreikningaskrár koma eftirfarandi tímasetningar fram varðandi lækkun á sektum:

    1. 90% lækkun á stjórnvaldssekt sbr. 2. mgr. 120. gr.: Listi verður tekinn út þriðjudagsmorguninn 5. nóvember 2024 m.v. skil fyrir miðnætti mánudaginn 4. nóvember.
    2. 60% lækkun á stjórnvaldssekt sbr. 2. mgr. 120. gr.: Listi verður tekinn út þriðjudagsmorguninn 3. desember 2024 m.v. skil fyrir miðnætti mánudaginn 2. desember.
    3. 40% lækkun á stjórnvaldssekt sbr. 2. mgr. 120. gr.: Listi verður tekinn út fimmtudaginn 2. janúar 2025 m.v. skil fyrir miðnætti miðvikudaginn 1. janúar.

 

Í tölvupósti ársreikningaskrár eru ýmis fleiri mikilvæg atriði tíunduð varðandi skil ársreikninga, skilafresti, hvernig hægt er að ganga úr skugga um hvort ársreikningi hafi verið skilað og önnur mál sem vert er að kynna sér.