Dómur. Borgar E gegn skattstj.í Rek. Álagningarskrá. Friðhelgi einkalífs.

Pdf - smellið hér    Meðfylgjandi dómur varðar meint mannréttindabrot skattyfirvalda í sambandi við framlagningu álagningarskrár.  Gjaldandi r stefndi er skattstjóranum í Reykjavík og  krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að skattstjóranum væri óheimilt, þrátt fyrir ákvæði  laga  um tekjuskatt, að leggja fram til sýnis álagningarskrá þar sem tilgreindir eru þeir skattar sem lagðir hafa verið á gjaldendur.    Með því taldi gjaldandinn á sér brotið þar sem  upplýst væri um tekjustofn hans gegn vilja hans. Slíkt sé brot á rétti hans til að njóta friðar um einkahagi sína. Sá réttur sé tryggður í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og einnig í 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966. Benti gjaldandinn á að frá því að fyrst voru lögfest ákvæði um opinbera birtingu á tekjum fólks hafi gríðarlegar umbætur átt sér stað hvað varðar réttarstöðu einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu, á sama tíma og réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs hafi verið bættur verulega. Dómarinn féllst ekki á rök gjaldandans. Vísaði dómurinn til ákvæða skattalaga og taldi lögfestingu  birtingarreglna  undirstrika  það álit löggjafans að framlagning álagningarskrár og aðgangur almennings að henni gegni enn mikilvægu hlutverki sem virkt aðhald gagnvart framteljendum.  Taldi dómurinn að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun löggjafans, og þjóni framlagningin um leið samfélagslegum tilgangi.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á að því markmiði sem að er stefnt með birtingu álagningarskrárinnar verði náð með öðru eða vægara úrræði. Var skattstjóri því sýknaður.