Einingar tengdar almannahagsmunum og markaðstorgið First North Iceland

Í 9. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga kemur fram hvaða félög flokkast sem einingar tengdar almannahagsmunum. Þar segir m.a. að félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum markaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum falli undir þá skilgreiningu. Það hvort félag teljist eining tengd almannahagsmunum skiptir máli þegar kemur að gerð ársreiknings. Má sem dæmi nefna að fara skal með fyrirtæki sem er eining tengd almannahagsmunum sem stórt félag án tillits til hreinnar veltu, niðurstöðutölu efnahagsreiknings eða fjölda ársverka á fjárhagsárinu sbr. e. lið 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga en ríkari kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf í ársreikningum stórra félaga en þeirra sem minni eru, sjá t.d. ákvæði 66. gr. laganna um góða stjórnarhætti og ófjárhagslega upplýsingagjöf. Það hvort félag teljist eining tengd almannahagsmunum eða ekki skiptir líka máli þegar kemur að endurskoðun sbr. reglugerð 537/2014 sem fjallar um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum. Loks má nefna að samkvæmt 108. gr. a. laga um ársreikninga skulu einingar tengdar almannahagsmunum vera með endurskoðunarnefnd.

FLE fékk fyrirspurn um það hvort félag sem ekki flokkast sem eining tengd almannahagsmunum myndi verða flokkuð sem eining ef það yrði skráð á markaðstorgið First North Iceland. Því er til að svara að svo er ekki og höfum við fengið þá túlkun staðfesta.

Jafnframt skal vakin athygli á því að ef félag er skráð á First North og telst ekki eining tengd almannahagsmunum, þá er við endurskoðun á ársreikningi þess ekki gerð krafa um gæðarýni (e. engagement quality control review, EQCR) samkvæmt íslenskum lögum þó að endurskoðunarfyrirtækið geti að sjálfsögðu beitt slíkri yfirferð ef það kýs eða þörf krefur.