Endurbættur ISA 570 staðall um rekstrarhæfi

Þann 9. apríl síðastliðinn gaf Alþjóðlega staðlaráðið (IAASB) út endurbættan staðal ISA 570 um rekstrarhæfi: ISA 570 (Revised 2024), Going Concern. Hann gildir við endurskoðun ársreikninga fyrir reikningsár sem hefjast 15. desember 2026 eða síðar. Staðalinn má nálgast hér.

Í umfjöllun staðlaráðsins um tilurð ISA 570 (revised) segir að hann sé svar við áföllum í rekstri fyrirtækja (e. corporate failures) sem vöktu spurningar um ábyrgð endurskoðenda og að endurbætti staðallinn styrki verulega vinnu endurskoðanda við mat á niðurstöðum stjórnenda um rekstrarhæfi viðkomandi félags. Í umfjölluninni segir að staðallinn muni jafnframt stuðla að auknu samræmi í verklagi við endurskoðun og efla gegnsæi með samskiptum og skýrslugjöf endurskoðanda um atriði tengd rekstrarhæfi.

Á Linkedin síðu IASSB segir að helstu endurbætur felist í eftirfarandi (útdráttur):

 

Öflugra áhættumati – Endurskoðendur skulu framkvæma tímanlegra og ítarlegra áhættumat til að greina mögulega óvissu um rekstrarhæfi einingar.

Dýpri skoðun á mati stjórnenda – Endurskoðendur skulu leggja mat á niðurstöður stjórnenda, óháð því hvort áhætta hafi verið auðkennd (e. identified risks), með hliðsjón af mögulegri hlutdrægni, mikilvægustu forsendum og undirliggjandi gögnum.

Lengdu matstímabili – það nær nú til að minnsta kosti 12 mánaða frá þeim degi sem ársreikningurinn var staðfestur, sem tryggir upplýsingar sem eru viðeigandi og nýtast til ákvarðanatöku.

Auknu gagnsæi – Skýrari upplýsingagjöf endurskoðanda um rekstrarhæfi og aukin samskipti við stjórn, endurskoðunarnefndir og ytri hagsmunaaðila.