no-title

PDF  -  Auglýsing um skil upplýsinga vegna framtalsgerðar-2009 PDF  -  Auglýsing um fresti og framtalsform-2009 PDF  -  Veflyklabréf skattskyldra lögaðila-2009 PDF  -  Veflyklabréf óskattskyldra-2009 PDF  -  Bifreiðahlunnindabréf-2009 PDF  -  Launaframtalsbréf - óskattskyldir-2009     TILKYNNING TIL ALLRA SKATTSTOFA OG FÉLAGA FAGFRAMTELJENDA! Undanfarna daga hefur staðið yfir útsending ýmissa gagna til viðskiptavina skattkerfisins, þó aðallega til rekstraraðila.  Búast má á næstunni við símhringingum og fyrirspurnum um upplýsingaskil vegna framtalsgerðar og annað sem tengist umræddum gögnum.  Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir þessi gögn ásamt sýnishornum og krækjum á myndir af þeim. Birt hefur verið auglýsing um upplýsingaskil vegna framtalsgerðar 2009, sem og auglýsing um framtalsfresti og framtalsform 2009.  Sjá má þessar auglýsingar í viðhengi með þessum pósti. 1. Gagnaskil. Gagnaskilakerfið hefur verið opnað fyrir rafræn skil á launamiðum, verktakamiðum, bifreiðahlunnindamiðum, hlutafjármiðum og öðrum upplýsingum sem skylt er að skila vegna framtalsgerðar.  Eins og áður má nota skilalykil, staðgreiðslulykil eða aðallykil til að skila skrám beint úr bókhaldskerfum og launakerfum, en mælt er með þeim fyrstnefnda þegar aðkeyptur aðili utan félags sinnir þessum skilum.  Einnig er hægt að skila skrám í gegnum vefinn eða slá upplýsingarnar inn í skilaform þar.  Skilafrestur er til 10. febrúar 2009 ef skilað er rafrænt, en ella til 30. janúar.  Vakin er athygli á því að unnt er að prenta flesta miða út úr Gagnaskilakerfinu eftir skil og því ætti að vera unnt að draga mjög úr notkun launamiða í þríriti.  Dregið hefur verið verulega úr prentun á þessum miðum og er gert ráð fyrir að þeir liggi ekki frammi hjá skattstofum, heldur verði afhentir að beiðni og í hóflegum mæli. 2. Veflyklabréf og bifreiðahlunnindabréf til lögaðila. Veflyklabréf.  Búið er að bera út til allra lögaðila, annars vegar veflyklabréf og hins vegar bréf um skil á bifreiðahlunnindamiðum (sjá sýnishorn í viðhengjum).  Um 34.200 skattskyldir lögaðilar fengu veflyklabréf og um 7.400 óskattskyldir lögaðilar fá annars konar veflyklabréf sem sniðið er að þeirra þörfum. Bifreiðahlunnindabréf.  Síðan fá lögaðilar, hvort sem þeir eru skattskyldir eða óskattskyldir, jafnframt bréf (í sama umslagi) um skil á bifreiðahlunnindamiðum þar sem m.a. kemur fram upptalning á þeim ökutækjum sem talið er að viðtakandi þurfi að skila miðum vegna.  Eindregið er mælt með því að launagreiðendur skili þessum miðum rafrænt í gegnum Gagnaskilakerfið.  Búið er að keyra þessar bifreiðar inn á bifreiðahlunnindamiða í Gagnaskilakerfinu, og þarf því að gera grein fyrir hverjum bíl, þ.e. hvort sem einhver afnot eru til staðar eða ekki. Orðsendingar.  Með veflyklabréfi til skattskyldra lögaðila fóru tvær orðsendingar; um Framtalsgerð og upplýsingaskil rekstraraðila 2009 (RSK 8.18) og um Skýrsluskil í tengslum við skattframtal 2009 (RSK 16.01, nr. 1/2009). 3. Bifreiðaskrár - uppfletting.  Vakin er athygli á að unnt er að fletta upp í Bifreiðaskrám RSK 1990-2009 og birtist uppreiknað verð auk verðsins eins og það var í Bifreiðaskrá viðkomandi árs.  Við útreikning á bifreiðahlunnindum á staðgreiðsluárinu 2009 skal nota verð bifreiða eins og það er í bifreiðaskrá viðkomandi árs, margfaldað með verðbreytingarstuðli.  Einnig má miða við staðgreiðsluverð nýrrar bifreiðar sömu tegundar á staðgreiðsluárinu 2009, reynist það lægra.  Þess ber að geta að skrá yfir nýjar bifreiðar ár hvert endurspeglar aðeins þær bifreiðar sem fáanlegar eru hjá bifreiðaumboðum hér á landi, en alls ekki allar mögulegar bifreiðategundir.  Í þeim tilvikum verður að finna verð sambærilegrar bifreiðar.  Auk þessa er unnt að nýta þessa uppflettingu beint úr Gagnaskilakerfinu.  Sjá uppflettingu hér. 4. Framtal lögaðila. Vefframtal lögaðila opnaði þann 23. janúar og gera má ráð fyrir að opnað verði fyrir vinnslu framtala í framtalshugbúnaði fagaðila, DK, fljótlega.  Minnt er á sérstakt framtalsform fyrir lögaðila sem ekki eru tekjuskattsskyldir (RSK 1.06 Skattframtal óskattskyldra lögaðila) sem eingöngu verður aðgengilegt í rafrænum skilum.  Skilafrestur lögaðila er til 31. maí, en framlengdur frestur fagframteljenda er til allt að 10. september (sjá hér). 5. Launaframtal - rafræn skil og pappír.  Allir sem greiða laun, þ.m.t. óskattskyldir lögaðilar, eiga þess kost að skila sundurliðun á launagreiðslum (stofni til tryggingagjalds) rafrænt og þurfa þar af leiðandi ekki að skila Launaframtali RSK 1.05 á pappír.  Hjá einstaklingum með rekstur er það hluti af samræmingarblaði RSK 4.05, hjá fyrirtækjum í atvinnurekstri er það hluti af skattframtali rekstraraðila RSK 1.04 og hjá  félögum sem undanþegin eru tekjuskatti er það hluti af skattframtali óskattskyldra lögaðila, RSK 1.06.  Síðastnefnda hópnum, sem telur um 1.480 aðila, hefur verið sent bréf til að kynna þeim sérstaklega að launaframtalinu sé nú unnt að skila á vefnum og frestur til þeirra skila sé til 31. maí nk. (sjá sýnishorn í viðhengjum). 6. Gíróseðill fjármagnstekjuskatts (RSK 5.20) ásamt orðsendingum.  Þessi gíróseðill hefur verið sendur til allra lögaðila og valins hóps einstaklinga, sem kunna að eiga að gera skil á afdreginni staðgreiðslu af fjármagnstekjum.  Alls voru það um 30.900 lögaðilar og 850 einstaklingar sem fengu sendan seðil.  Með seðlinum fengu allir orðsendingu Um skil á afdreginni staðgreiðslu af fjármagnstekjum (RSK. 5.39).  Einnig var hlutafélögum og einkahlutafélögum í þessum hópi send sérstök orðsending um Skil á hlutafjármiðum til skattyfirvalda (RSK 6.02).  Þess má geta að eindagi fjármagnstekjuskatts er 30. janúar nk.  Jafnvel þó að ekki hafi verið um að ræða neina afdregna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts, skal samt skila núllskýrslu til skattstjóra! 7. Staðgreiðsluskýrslur.  Staðgreiðsluskýrslur (RSK 5.10) hafa verið sendar til þeirra sem ekki eru í rafrænum skilum.  Að þessu sinni er sendur heilsársskammtur af skýrslum til einstaklinga með rekstur, sem og til lögaðila (samtals um 9.300 aðilar), og jafnframt fá um 3.400 aðilar sendan sama skammt af staðgreiðslusundurliðunum (RSK 5.06). 8. Virðisaukaskattsskýrslur - ársskil.  Virðisaukaskattsskýrslur hafa verið sendar til aðila í ársskilum sem ekki eru í rafrænum skilum (samtals 3.150 aðilar).  Skýrslunni fylgja tvær orðsendingar; um Skýrsluskil í tengslum við skattframtal 2009 (RSK 16.01, orðs. nr. 1/2009), og um Ársskil - skil á virðisaukaskatti fyrir árið 2009 (RSK 16.01, orðs. nr. 2/2009). 9. Fyrirframgreiðsluseðlar.  Verið er að vinna við árlega álagningu fyrirframgreiðslna utan staðgreiðslu í samvinnu við fjársýslu ríkisins.  Skattheimtuseðlarnir verða sendir út á næstu dögum.  Um er að ræða ca. 1.250 seðla til einstaklinga og um 16.700 seðla til lögaðila. 10. Reiknað endurgjald.  Tilkynning um "hækkun" á reiknuðu endurgjaldi hefur verið borin út til liðlega 10.500 sjálfstætt starfandi einstaklinga (sjá hér RSK 6.08).  Samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra hækkaði lágmark reiknaðs endurgjalds ekkert frá fyrra ári (sjá hér). 11. Tilkynning um virðisaukaskatt.  Send um 6.000 gjaldendum vegna uppgjörstímabilsins september-október sl.  Tilkynnt um áætlun, skuldastöðu eða inneign vsk. Með bestu kveðjum, RÍKISSKATTSTJÓRI