Samkeppnishæfni Evrópu, regluverk og sjálfbærnireikningsskil

Þann 29. janúar síðastliðinn gaf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e. European Commission) út afar læsilega og góða  skýrslu sem nefnist A Competitiveness Compass for the EU og mætti þýða sem samkeppniskvarði fyrir ESB. Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um þær áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir þegar kemur að samkeppnishæfni auk tillagna til úrbóta. Í skýrslunni er vísað mikið til skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni Evrópu sem kom út síðastliðið haust en Draghi er fyrrverandi forseti Seðlabanka Evrópu.

Í kafla 2 í fyrrnefndri  skýrslu framkvæmdastjórnarinnar (bls. 16 -17) segir að íþyngjandi regluverk (e. regulatory burden) hamli samkeppnishæfni Evrópu og eru breytingar boðaðar. Segir að þær hefjist stax í febrúar með röð heildstæðra einföldunarpakka (e. simplification omnibus packages) og að fyrsti heildarpakkinn muni meðal annars ná til víðtækrar einföldunar á eftirfarandi sviðum:

  • sjálfbærrar fjármálaskýrslugerðar (e. sustainable finance reporting);
  • áreiðanleikakannana vegna sjálfbærni (e. sustainability due diligence); og
  • flokkunarkerfisins (e. taxonomy).

Ætlunin er að skilgreina nýjan stærðarflokk fyrir þau félög sem eru stærri en lítil og meðalstór félög (e. SME) en minni en stór félög og er fyrirhugað að einfalda regluverkið fyrir þau félög sem falla í þennan nýja flokk.

Nánari útfærsla á hvernig þessari fyrirætlan Evrópusambandsins verður háttað liggur ekki fyrir á þessari stundu en ætti að skýrast fljótlega sem og mögulegum áhrifum á gildissvið og eftir atvikum ákvæði tilskipana sem varða sjálfbærnimál.

Um nánari umföllun og lesefni má vísa til greinar okkar ágæta félagsmanns Margrétar Pétursdóttur á LinkedIn sem og  frétt Accountancy Europe.

Að lokum má minna á þessa frétt á heimasíðunni okkar þar sem fram kemur að frumvarp vegna sjálfbærnitilskipunar (e. CSRD) verður ekki lagt fram á vorþingi.