Umsögn FLE um frumvarp til laga um breytingar á stærðarflokkun félaga og endurskoðunarskyldu
Þann 25. mars sendi álitsnefnd FLE umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga sem varðar stærðarmörk félaga og endurskoðun ársreikninga. Umsögn FLE ásamt umsögnum frá öðrum má finna hér.
Stærðarmörk félaga
Í frumvarpinu er lagt til að stærðarmörk félaga verði hækkuð. Veigamesta breytingartillagan felst í því að stærðarviðmið örfélaga yrðu hækkuð verulega. Miklu fleiri félög en áður gætu því nýtt sé „Hnappinn“ og samið rekstar- og efnahagsyfirlit, byggt á skattframtali félagsins í stað þess að gera ársreikning, sbr. 7. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga.
FLE bendir á það í umsögn sinni að mikilvægt sé að ekki sé vikið frá stærðarmörkum í ársreikningatilskipun ESB nr. 2013/34 nema að vandlega athuguðu máli, benti á að nýlega var stærðarmörkum í tilskipuninni breytt og að FLE telji eðlilegt að breytingar á stærðarmörkum í íslenskum lögum taki mið af því. Jafnframt bendir FLE á að skoða þurfi áhrif breytinga á stærðarmörkum á önnur lagaákvæði og að skynsamlegt sé að breytingar séu gerðar samhliða breytingum á lögum um ársreikninga vegna innleiðingar á tilskipun ESB um sjálfbærniupplýsingar.
Núgildandi stærðarmörk ársreikningalaga, stærðarmörk samkvæmt frumvarpinu og stærðarmörk samkvæmt ársreikningatilskipun eru sem hér segir.
Núgildandi stærðarmörk
Eignir Velta Starfsmenn
Örfélag - undir < 20.000.000 40.000.000 3
Lítið félag < 600.000.000 1.200.000.000 50
Meðalstórt félag < 3.000.000.000 6.000.000.000 250
Stórt félag > 3.000.000.000 6.000.000.000 250
Stærðarmörk samkvæmt frumvarpi
Eignir Velta Starfsmenn
Örfélag - undir < 55.000.000 110.000.000 10
Lítið félag < 650.000.000 1.300.000.000 50
Meðalstórt félag < 3.200.000.000 6.400.000.000 250
Stórt félag > 3.200.000.000 6.400.000.000 250
Stærðarmörk samkvæmt ársreikningatilskipun
Eignir Velta Starfsmenn
Örfélag - undir < 67.500.000 135.000.000 10
Lítið félag < 750.000.000 1.500.000.000 50
Meðalstórt félag < 3.750.000.000 7.500.000.000 250
Stórt félag > 3.750.000.000 7.500.000.000 250
Endurskoðunarskylda
Fjallað er um endurskoðunarskyldu í 96. gr. laga um ársreikninga. Í 98. gr. kemur fram að félögum sem eru undir tveimur af eftirfarandi stærðarmörkum tvö næst liðin reikningsár megi sleppa því að láta endurskoða ársreikninga sína.*
- niðurstaða efnahagsreiknings: 200.000.000 kr.,
- hrein velta: 400.000.000 kr.,
- meðalfjöldi ársverka á fjárhagsárinu: 50.
*Ákveðnar undantekningar eru frá þessu, sbr. 3.-5. mgr. 98. gr. laganna.
Samkvæmt frumvarpinu yrðu framangreind viðmiðunarmörk hækkuð og lítil félög undanskilin endurskoðunarskyldu. Félag þyrfti því að vera meðalstórt eða stærra til að vera endurskoðunarskylt.
Í umsögn FLE er bent á að stærðarmörk endurskoðunarskyldu í núverandi lögum eru umtalsvert undir stærðarmörkum ESB. Samkvæmt mörkum ESB eru félög sem flokkast sem lítil undanþegin endurskoðunarskyldunni og í fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að mörkin í íslensku lögunum lúti sömu viðmiðum. Jafnframt kemur fram að FLE telji mikilvægt að skoða hvaða rök lágu fyrir því að vikið var frá stærðarmörkum endurskoðunar í tilskipuninni á sínum tíma og að ákvörðun um breytingu í átt að viðmiði hennar verði vandlega rökstudd. Eftirfarandi tafla sýnir samanburð á núverandi mörkum endurskoðunarskyldu, viðmiði samkvæmt frumvarpinu og viðmiðunarmörk samkvæmt tilskipun, í íslenskum krónum miðað við að notast væri við gengið 1 evra = 150 kr.
Eignir = eða > Velta = eða > Ársverk
Stærð í samræmi við tilskipunina 750.000.000 1.500.000.000 50
Stærð í samræmi við ársreikningalög 200.000.000 400.000.000 50
Stærð í frumvarpi um breytingu á lögum um ársreikninga 650.000.000 1.300.000.000 50