Unnar Friðrik Pálsson nýr framkvæmdastjóri FLE
Unnar Friðrik Pálsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri FLE. Hann mun hefja störf um áramótin og taka við af Sigurði Arnþórssyni sem hefur gegnt starfinu í hartnær 14 ár.
Unnar er löggiltur endurskoðandi og hefur starfað hjá KPMG í tæplega 23 ár. Hann hefur kennt fjölmörg námskeið í reikningsskilum í Háskólanum í Reykjavík í 20 ár og verið í fastri stöðu í HR frá árinu 2012.
Unnar hefur verið fulltrúi FLE í reikningsskilaráði frá árinu 2016 en var áður í reikningsskilanefnd félagsins um fjögurra ára skeið. Hann er einn af fulltrúum FLE í vinnuhópi norræna endurskoðendasambandsins vegna nýrrar sjálfbærnitilskipunar og hefur ásamt fleiri félagsmönnum verið í vinnuhópum um innleiðingu Evróputilskipana er varða lög um ársreikninga og sjálfbærni. Unnar hefur setið í prófnefnd til löggildingar endurskoðunarstarfa frá árinu 2017.
Unnar er kvæntur Auði Þorgeirsdóttur, vörustjóra hjá VÍS og eiga þau synina Aron og Arnar Pál.