Tiltektar- og viðhaldsdagur í Reykjadal 15. maí - Samfélagsleg ábyrgð
Reykjadalur eru sumarbúðir í Mosfellsdal fyrir fötluð börn og ungmenni. Árlega koma um 250 einstaklingar í Reykjadal á aldrinum 8-21 árs. Þar er haft að leiðarljósi að ekkert sé ómögulegt og ævintýrin látin gerast.
FLE langar að endurtaka leikinn frá því í fyrra og leggja sitt af mörkum og fá ykkur og jafnvel fleiri starfsmenn á ykkar vinnustöðum með okkur í smá ævintýri í Reykjadal þann 15. maí nk.
Fyrsti barnahópurinn mætir í sumardvöl þann 26. maí og væri ótrúlega gaman ef við gætum hjálpað starfsfólkinu með fjölbreytt verkefni, eins og að fegra aðeins útisvæðið áður en börnin koma með því að bera á pallinn, bera á útihúsgögnin, þrífa sundlaugina, sópa lóðina, tína rusl, pumpa í hjólin o.fl. Einnig er eitthvað af verkefnum innandyra en aðal áherslan er á útisvæðið.
Verkefnalistinn er langur og forgangsraðaður en þau eru þakklát fyrir hvern og einn sem getur mætt og sama hversu stutt það er, fleiri hendur þýða fallegra umhverfi þegar krakkarnir mæta!
Áætlað er að byrja kl. 9 og vera til kl. 15. Í hádeginu ætlum við að bjóða upp á matarvagn og njóta þess að vera saman.
Öll verkfæri og efni eru á staðnum, eina sem þarf að koma með er góða skapið og föt sem mega verða skítug.
Ef þið hafið tök á því að taka þátt í verkefninu með okkur þá er hér SKRÁNING og hægt er að velja hvort að mætt sé allan tímann eða hluta af deginum.