Lögfræðiálit vegna áritunar ríkisendurskoðanda

Sem kunnugt er hóf ríkisendurskoðandi, sem ekki er löggiltur endurskoðandi, á síðasta ári að árita einn ársreikninga félaga í meirihlutaeigu ríkisins sem falla undir lög um ársreikninga og eru endurskoðunarskyld. Eitt þessara félaga er Isavia ohf. Það var mat stjórnar FLE að þetta fengist ekki staðist. FLE hefur aflað ítarlegs lögfræðiálits um lögmæti þeirrar ákvörðunar ársreikningarskrár að skrá samstæðureikning Isavia ohf. með lögformlegum hætti án þess að hann sé áritaður um endurskoðun af löggiltum endurskoðanda. Er niðurstaða álitsins sú að áritun ríkisendurskoðanda, sem hefur sem fyrr greinir ekki löggildingu til endurskoðunarstarfa, fyrir hönd Ríkisendurskoðunar sem stofnunar á samstæðureikninginn um endurskoðun hans, sé andstæð lögum nr. 3/2006, sem og lögum nr. 94/2019. Sé áritun ríkisendurskoðanda því markleysa að lögum (nullitet). Lögfræðiálitið má nálgast hér.

FLE hefur nú farið þess á leit við við ársreikningaskrá ríkisskattstjóra að hún endurupptaki ákvörðun sína um skráningu samstæðureiknings Isavia ohf. og dótturfélaga vegna reikningsársins 2023 og breyti ákvörðun sinni á þann veg að hafnað verði að skrá samstæðureikninginn í ársreikningaskrá og óskað eftir því við ársreikningaskrá að hún upplýsi um það innan 10 daga hvort hún verði við tilmælum félagsins um að endurupptaka ákvörðun sína um skráningu samstæðureiknings Isavia ohf. Verði ekki orðið við þeim tilmælum áskilur FLE sér rétt til þess að leita annarra leiða til þess að knýja fram löglega málsmeðferð af hálfu ársreikningaskrá vegna samstæðureiknings Isavia ohf., þ.m.t. að leggja fram stjórnsýslukæru til Menningar- og viðskiptaráðuneytisins með kröfu um að téð ákvörðun ársreikningarskrár um skráningu samstæðureiknings Isavia ohf. verði hrundið.